Innlent

Tekjur ríkissjóðs af veiðigjaldi hækki um tæpa þrjá milljarða á næsta ári

Birgir Olgeirsson og Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifa
Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra segir þetta til marks um að kerfið sé að virka.
Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra segir þetta til marks um að kerfið sé að virka. Vísir/Egill

Áætlað er að tekjur ríkissjóðs af veiðigjaldi verði 7,5 milljarðar króna á næsta ári. Gangi það eftir yrði það tæplega þriggja milljarða hækkun frá árinu í ár. Sjávarútvegsráðherra segir þetta til marks um að veiðigjaldskerfið sé að virka.

Sjávarútvegsráðherra gerði grein fyrir þessari áætlun á fundi ríkisstjórnar í vikunni. Tekjur af veiðigjaldi á þessu ári eru áætlaðar 4,8 milljarðar. Ástæðan fyrir því að talið er að tekjurnar muni hækka í 7,5 milljarða á næsta ári er einkum rakin til sérstakra aðstæðna sem voru árið 2018, sem eru við miðunarár veiðigjalds 2020. Þá fór saman lágt aflaverðmæti, sem tengja má við hátt gengi krónunnar og samdráttar í afla. Auk þess var fyrning veiðiskipa nokkuð há vegna endurnýjunar í fiskveiðiflotanum. Ráðherra segir þessa hækkun sýna að núverandi fyrirkomulag veiðigjaldsins virki.

Vísir/Vilhelm

„Um leið og afkoma útgerðarinnar batnar þá hækkar gjaldið en um leið og afkoman dregst saman af veiðum þá dregst gjaldið saman. Þannig að það er meira samhengi á milli þess hvernig gengur í greininni og þeirrar sérstöku gjaldtöku sem þarna á sér stað,“ segir Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra.

Helstu breytingar í reiknistofni milli áranna 2020 og 2021 eru þær að aflaverðmæti eykst í takt við hagstæðara gengi árið 2019 miðað við 2018 og að eldsneytiskostnaður lækkar nokkuð. Ráðherra segir ákvörðunina nú komna frá framkvæmdavaldinu eftir að reglur um útreikninga á veiðigjaldinu voru festar í lög.

„Nú er það sú stofnun sem er færust um að meta upplýsingar frá fyrirtækjunum, það er að segja Skatturinn, sem að reiknar einfaldlega gjaldið út í stað þess að áður var þetta á grunni ákveðinnar nefndar sem var pólitískt skipuð og gerði tillögur til ráðherra um fjárhæðir veiðigjalda,“ segir Kristján Þór.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×