Fótbolti

Ein úr Real Madrid og önnur úr Juventus gætu misst af leiknum við Ísland

Sindri Sverrisson skrifar
Lina Hurtig, til hægri á myndinni, var í byrjunarliði Svía á Laugardalsvelli en meiddist á fimmtudaginn.
Lina Hurtig, til hægri á myndinni, var í byrjunarliði Svía á Laugardalsvelli en meiddist á fimmtudaginn. vísir/vilhelm

Svíþjóð gæti þurft að spjara sig án Real Madrid stjörnunnar Kosovare Asllani sem og Linu Hurtig, framherja Juventus, í stórleiknum við Ísland á morgun.

Svíþjóð og Ísland mætast öðru sinni í undankeppni EM í Gautaborg á morgun, eftir að hafa gert 1-1 jafntefli á Laugardalsvelli í síðasta mánuði.

Asllani og Hurtig voru tvær af fremstu fjórum leikmönnum Svía á Laugardalsvellinum. Asllani missti hins vegar af 7-0 sigri Svía á Lettum síðasta fimmtudag, vegna meiðsla í læri, og Hurtig fór meidd af velli í fyrri hálfleik.

Kosovare Asllani fagnar marki í leik með Real Madrid.Getty/Diego Souto

Peter Gerhardsson, þjálfari Svía, talaði í hálfkveðnum vísum þegar hann var spurður um stöðuna á leikmönnunum tveimur á blaðamannafundi í dag. Veit hann hvort að Asllani og Hurtig geta byrjað leikinn á morgun?

„Ekki alveg. Við fylgjumst með æfingu dagsins og sjáum svo til. En þetta hefur verið mjög jákvætt. Við sjáum svo til hvort að þær geta báðar byrjað leikinn. Maður þarf líka að vera með góða varamenn sem geta komið inn á og breytt gangi mála,“ sagði Gerhardsson.

Blackstenius klár í slaginn

Stina Blackstenius var aðalframherji Svía þegar liðið vann til bronsverðlauna á HM í fyrra. Hún missti af síðasta leik gegn Íslandi vegna meiðsla og var ekki með gegn Lettlandi í síðustu viku. Það var þó ekki vegna meiðsla og er hún klár í slaginn á morgun. Gerhardsson sagði alla 25 leikmenn sína geta spilað leikinn mikilvæga við Ísland.

Svíþjóð er efst í F-riðli með 16 stig eftir sex leiki en Ísland kemur næst með 13 stig eftir fimm leiki. Ísland á eftir að mæta Slóvakíu og Ungverjalandi á útivelli eftir mánuð. Efsta lið riðilsins kemst beint á EM og liðið í 2. sæti fer beint á EM eða í umspil. Þrjú lið í undanriðlunum níu, með bestan árangur í 2. sæti, fara beint á EM en sex lið í umspil um þrjú laus sæti á EM.


Tengdar fréttir

Bítast um íslensku ungstirnin

Sveindís Jane Jónsdóttir og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir vöktu mikla athygli með frammistöðu sinni í landsleikjunum við Lettland og Svíþjóð í síðasta mánuði.

Höfum búið til góðan markamun gegn Íslandi

Svíþjóð stendur betur að vígi en Ísland í baráttunni um efsta sæti F-riðils í undankeppni EM kvenna í fótbolta, nú þegar fjórir dagar eru í að liðin mætist í Gautaborg.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.