Innlent

Allir bjartsýnir á Sólvöllum þrátt fyrir smit

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Allt heimilis- og starfsfólk Sólvalla er í sóttkví eftir að kórónuveirusmit greindist á heimilinu. 
Allt heimilis- og starfsfólk Sólvalla er í sóttkví eftir að kórónuveirusmit greindist á heimilinu.  Vísir/Ja.is

Tveir íbúar á hjúkrunarheimilinu Sólvöllum á Eyrarbakka greindust með kórónuveiruna í gærkvöldi og hafa allir íbúar og starfsmenn verið sendir í sóttkví. Bakvarðasveitin hefur verið fengin til að aðstoða íbúana. Einn íbúi flutti nýverið á Sólvelli eftir að hafa dvalið á Landakoti og eru smitin rakin til hópsýkingarinnar sem greindist þar í gær. 

„Það er búið að taka sýni af starfsfólki og við eigum von á að fá niðurstöður jafnvel í kvöld. Þetta er allt saman í ferli, rakningarteymið er að vinna í þessu líka og alls konar aðilar sem halda vel utan um okkur,“ segir Jóhanna Harðardóttir, hjúkrunarfræðingur á Sólvöllum, en 24 starfsmenn og 17 heimilismenn eru nú í sóttkví. 

Hún segir íbúa nokkuð bratta og að þeir sem smituðust séu með lítil einkenni, en að þeir hafi verið sendir á Landspítalann til frekari aðhlynningar.

„Fólk ber sig vel. Við erum búin að undirbúa þetta og heimilismenn hafa fylgst með Covid fréttum og eru vel með á nótunum. Síðan hefur stundum verið heimsóknarbann hjá okkur og fólk er vant þessu. Það eru allir með síma og sjónvarp og ipad inni hjá sér til að nota og fólk gerir bara það besta úr þessu.“

Jóhanna segir að vissulega sé þetta viðkvæmur hópur en heldur í jákvæðnina. „Við erum brött og bjartsýn á að þetta muni allt ganga vel,“ segir hún.


Tengdar fréttir

Býst við fleiri smitum á Landakoti

Tuttugu og sex starfsmenn og sjúklingar á Landskotsspítala hafa nú greinst smitaðir af kórónuveirunni og býst sóttvarnalæknir við að þeim gæti fjölgað eitthvað á næstu dögum. Hópsmitið sýni hversu lítið þarf til að veiran komist inn í viðkvæma hópa þrátt fyrir strangar reglur og takmarkanir.

76 ný kórónuveirusmit í gær

Sjötíu og sex manns greindust smitaðir af kórónuveirunni innanlands í gær. Af þeim voru tæp 80% í sóttkví þegar þeir greindust. Einn hefur bæst við á gjörgæsludeild á milli daga.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.