Fótbolti

Neyddar til vinnu og mæta ekki Svíum

Sindri Sverrisson skrifar
Ísland átti ekki í vandræðum með að valta yfir Lettland í síðasta mánuði og kom boltanum níu sinnum framhjá hinni 17 ára gömlu Lauru Sinutkina.
Ísland átti ekki í vandræðum með að valta yfir Lettland í síðasta mánuði og kom boltanum níu sinnum framhjá hinni 17 ára gömlu Lauru Sinutkina. Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Lettneska kvennalandsliðið í fótbolta mátti sín lítils gegn því íslenska á Laugardalsvelli í síðasta mánuði. Liðið er án lykilmanna gegn Svíum í dag, meðal annars vegna þess að þær fengu ekki frí frá vinnu.

Á meðan að íslenska liðið æfir saman í Gautaborg þessa dagana til að undirbúa sig fyrir stórleikinn við Svíþjóð í næstu viku, spila Svíar í dag við Letta. Íslensku stelpurnar fengu sem betur fer allar frí frá vinnu og námi til að fara snemma út og einbeita sér að leiknum.

Ísland vann Lettland 9-0 í undankeppni EM fyrir mánuði og búast má einnig við stórum tölum í dag. Svíþjóð vann Lettland 4-1 á útivelli og þar skoraði Eyjakonan Olga Sevcova eina mark Letta. Hún verður ekki með Lettlandi í dag vegna fjölskylduástæðna, samkvæmt fjölmiðlafulltrúa lettneska landsliðsins.

Segir hafa skipt sköpum að hafa 17 ára markmann gegn Íslandi

Lettar verða sömuleiðis án Kristine Girzda og Renate Fedotova í Gautaborg í dag. Girzda er mikilvæg liðinu sem varnarsinnaður miðjumaður en Fedotova á ekki fast sæti í byrjunarliðinu.

„Girzda og Fedotova eru ekki atvinnumenn og neyddust báðar til að vera eftir heima til að vinna. Yfirmenn þeirra þvinguðu þær til að vinna,“ sagði fjölmiðlafulltrúinn Ilja Polakovs við Fotbollskanalen.

Polakovs segir lettneska liðið einnig hafa verið í markmannsvandræðum undanfarið, eftir að fyrirliðinn Marija Ibragimova hætti. Það hafi haft mikið um tapið stóra að segja gegn Íslandi í markinu hafi verið 17 ára markmaður, Laura Sinutkina.

Blackstenius bara með gegn Íslandi

Framherjinn Stina Blackstenius verður ekki með Svíum í dag, þrátt fyrir að hafa jafnað sig af meiðslum frá því að hún missti af 1-1 jafnteflinu við Ísland í síðasta mánuði. Hún náði lítið sem ekkert að æfa með sænska landsliðinu á meðan að hún beið niðurstöðu úr kórónuveiruprófi, sem reyndist svo neikvæð. Blackstenius verður því með í leiknum mikilvæga gegn Íslandi næsta þriðjudag.


Tengdar fréttir

Földu löngu innköstin hennar Sveindísar gegn Lettum

Bára Kristbjörg Rúnarsdóttir segir að það hafi verið klókt hjá landsliðsþjálfaranum Jóni Þór Haukssyni að fela löngu innköstin hennar Sveindísar Jane Jónsdóttur gegn Lettum til að koma Svíum á óvart.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.