Íslenski boltinn

KSÍ búið að endur­skipu­leggja mótin: Pepsi Max deild karla lýkur á mánu­degi

Anton Ingi Leifsson skrifar
KR og Stjarnan eiga mikið undir því að Íslandsmótið verði klárað svo liðin geti freistað þess að ná Evrópusæti.
KR og Stjarnan eiga mikið undir því að Íslandsmótið verði klárað svo liðin geti freistað þess að ná Evrópusæti. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

KSÍ hefur gefið út leikjaniðurröðin fyrir nóvembermánuð en eins og flestir knattspyrnuáhugamenn vita hefur deildin verið á pásu vegna kórónuveirunnar.

Í gær gaf KSÍ það svo út að sambandið hugðist klára allar keppnir en það þarf að gera fyrir 1. desember. Því hafa Birkir Sveinsson, mótastjóri, og samstarfsfólk hans í mótanefndinni setið sveitt við að endurskipuleggja öll mótin í meistaraflokki.

Pepsi Max deild karla fer aftur af stað 8. nóvember en henni lýkur svo 30. nóvember. Alla leikina má sjá á heimasíðu KSÍ. Flest liðin spila einn leik fyrir landsleikjahléið í nóvember en Stjarnan og KR tvo því þau mætast í frestuðum leik sín á milli.

Pepsi Max deild kvenna fer einnig aftur af stað þann 8. nóvember. Flest liðin klára sína leiki þann 15. nóvember en Fylkir og KR mætast í síðasta leik mótsins þann 18. nóvember. Þetta er frestaður leikur frá því fyrr í sumar er KR-liðið var í einum af þeim þremur sóttkví sem liðið þurfti í.

Keflavík og Grindavík geta spilað í Lengjudeild karla, þar sem þau eru utan höfuðborgarsvæðisins, og þau mætast þar af leiðandi í Keflavík 31. október í frestuðum leik. Hin liðin í Lengjudeildinni hefja svo leik 8. eða 9. nóvember og lokaumferðin fer svo fram 14. nóvember.

Í Lengjudeild kvenna er búið að skera úr hvaða lið fara upp og hvaða lið falla en lokaumferð deildarinnar fer fram 8. og 9. nóvember.


Tengdar fréttir

KSÍ ætlar að klára Íslandsmótið

Svo lengi sem takmarkanir á æfingum og keppni verði afnumdar eigi síðar en 3. nóvember ætlar KSÍ að klára Íslandsmótið í fótbolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×