Erlent

Lýsa eftir dularfullum bíl á ferð morguninn sem Anne-Elisabeth hvarf

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Anne-Elisabeth Hagen hvarf sporlaust 31. október 2018. Lögregla birti í dag myndir úr eftirlitsmyndavélum (t.h.) sem talið er að sýni bíl ekið eftir göngustíg morguninn sem Anne-Elisabeth hvarf.
Anne-Elisabeth Hagen hvarf sporlaust 31. október 2018. Lögregla birti í dag myndir úr eftirlitsmyndavélum (t.h.) sem talið er að sýni bíl ekið eftir göngustíg morguninn sem Anne-Elisabeth hvarf. Samsett

Lögregla í Noregi lýsir nú eftir dularfullum bíl sem ekið var eftir göngustíg í grennd við heimili Anne-Elisabeth Hagen og eiginmanns hennar stuttu áður en hún hvarf. 

Norskir fjölmiðlar hafa fjallað um mál Anne-Elisabeth í dag. Fram kemur í umfjöllun miðlanna NRK og VG að lögregla hafi lengi vitað af bílnum þó að fyrst hafi verið lýst eftir honum með myndum og myndböndum í dag. Nær ekkert er vitað um hann: lögregla er engu nær um tegund hans, ökumanninn eða mögulega farþega þrátt fyrir að nær tvö ár séu frá því að Anne-Elisabeth hvarf.

„Þetta er áhugaverður bíll og við viljum ná tali af þeim sem ók hann, farþegum eða vitnum sem hafa séð til hans,“ segir Agnes Beate Hemiø yfirlögregluþjónn í samtali við VG í dag.

Á ferð á mikilvægu augnabliki

Bíllinn hefur einkum vakið áhuga lögreglu vegna þess að honum var ekið í grennd við heimili Hagen-hjónanna að Sloraveien í Lørenskog fyrir klukkan níu að morgni 31. október 2018. Síðast er vitað af Anne-Elisabeth á lífi klukkan 9:14 þann sama morgun.

Eftirlitsmyndavélar sýna hreyfingu á göngustíg fyrir neðan húsið að morgni 31. október 2018. Myndirnar eru þó í afar lélegum gæðum, sem einmitt er ástæðan fyrir því að þær hafa ekki verið birtar fyrr en nú, og erfitt að greina hvað þær sýna. Rétt fyrir klukkan átta umræddan morgun sést þó rautt ljós á stígnum. Hvítt ljós, sem lögregla telur af bifreið, sést svo á hreyfingu á stígnum nokkrum sekúndum síðar og aftur í nokkrar sekúndur um klukkutíma síðar. 

Lögregla telur tímasetninguna hafa mikla þýðingu fyrir rannsóknina, þar sem Anne-Elisabeth er talin hafa verið myrt skömmu eftir klukkan 9:14.

Myndband af hinum meintu bílljósum sem lögregla birti í dag má nálgast í frétt NRK.

Rannsókn lögreglu á máli Anne-Elisabeth er ein sú umfangsmesta og dýrasta í norskri sögu. Lögregla hefur nú kortlagt 122 staði í tengslum við rannsóknina, bæði í Noregi og öðrum löndum. Þá lýsti lögregla eftir manni í sumar sem náðist á upptöku eftirlitsmyndavéla á göngu í grennd við húsið að Sloraveien daginn sem Anne-Elisabeth hvarf. Lögregla hefur reynt hvað hún getur til að finna manninn en hefur ekki haft erindi sem erfiði. Hemiø yfirlögregluþjónn segir í samtali við VG að það sé grunsamlegt að maðurinn hafi ekki gefið sig fram.

Enn er gengið út frá því að Anne-Elisabeth hafi verið myrt á heimili sínu að Sloraveien að morgni 31. október 2018. Lögregla telur að eiginmaður hennar, Tom Hagen, hafi átt aðild að andláti hennar. Hann var handtekinn í lok apríl vegna gruns um slíka aðild en sleppt lausum í maí. Hann neitar því að hafa átt nokkurn hlut að máli.

Rannsókn málsins er enn í forgangi hjá lögreglu, að sögn Hemiø. Markmiðið sé að finna Anne-Elisabeth og morðingja hennar. „Það er hægt að leysa þetta mál,“ segir Hemiø í samtali við VG í dag.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×