Enski boltinn

Rio Ferdinand vill sjá meira af „ljótum mörkum“ hjá Rashford

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marcus Rashford fagnar marki með félögum sínum í Manchester United.
Marcus Rashford fagnar marki með félögum sínum í Manchester United. Getty/Alex Pantling

Rio Ferdinand var sérfræðingur BT Sport eftir leik Paris Saint Germain og Manchester United í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í gær þar sem Manchester United liðið spilaði mjög vel og vann 2-1 sigur.

Marcus Rashford fékk auðvitað mikið hrós en hann tryggði Manchester United sigurinn í lok leiksins og endurtók þar með leikinn frá því í París í mikilvægum leik í Meistaradeildinni árið 2019.

Ferdinand ræddi frammistöðu og framtíð Marcus Rashford og nefndi Wayne Rooney í því samhengi.

„[Marcus] Rashford getur án efa orðið heimsklassa leikmaður en hann heldur áfram að bæta sig. Hann þarf hins vegar að bæta því við sig að pota inn meira af mörkum. Þegar Wayne Rooney samdi við United þá skoraði hanns stórkostleg mörk en skoraði aftur á móti ekki ljót mörk. Hann hugsaði síðan um ekkert annað en að skora,“ sagði Rio Ferdinand.

„Marcus skorar frábær mörk og hann býr til frábær mörk. Ef hann gæti farið að gera þessa ljótu hluti líka þá gæti hann orðið magnaður,“ sagði Ferdinand sem vill sjá meira af „ljótum mörkum“ hjá Rashford. Hann vill líka sjá enska landsliðsframherjann vera gráðugri á síðasta þriðjungi vallarins.

„Munurinn á Rashford og [Kylian] Mbappe í dag er þegar Mbappe fær boltann þá spennist ég allur upp því hann gerir sig alltaf líklegan til að skora. Marcus verður að horfa meira upp og hugsa meira um að skora þegar hann fær boltann,“ sagði Rio Ferdinand.

Marcus Rashford verður 23 ára eftir tíu daga og er því mjög ungur enn. Hann er með 4 mörk og 2 stoðsendingar í fyrstu sjö leikjum tímabilsins þar af 2 mörk og 2 stoðsendingar í fjórum leikjum í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×