Erlent

Þýskur maður beitti pipar­úða á hjól­reiða­fólk til að tryggja fjar­lægðar­mörk

Atli Ísleifsson skrifar
Lögregla í Þýskalandi hefur hafið rannsókn á gjörðum hins 71 árs gamla manni. Myndin er úr safni.
Lögregla í Þýskalandi hefur hafið rannsókn á gjörðum hins 71 árs gamla manni. Myndin er úr safni. Getty

Lögregla í Þýskalandi hafði í gær afskipti af 71 árs gömlum þýskum karlmanni sem hafði beitt piparúða á fólk sem hann taldi koma of nálægt sér og ekki virða boðuð fjarlægðarmörk.

DW segir frá því að lögregla í bænum Aachen í vesturhluta landsins hafi greint frá málinu. Hafi maðurinn beitt piparúða bæði á hjólreiðafólk og hlaupara.

Lögregla segir frá því að hjólreiðafólkinu, sem maðurinn hafði sprautað á, hafi tekist að komast af hjólinu og hringja á lögreglu án þess slys hafi orðið.

Lögreglumaður hafi svo rætt við manninn sem hafi rökstutt gjörðir sínar á þann veg að engin önnur leið væri fær til að vernda sig á þessum tímum kórónuveirunnar.

Málið er nú komið til rannsóknar hjá lögreglu, en maðurinn er grunaður um að hafa valdið öðru fólki skaða og að trufla umferð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×