Enski boltinn

Frétti það á sama tíma og blaðamenn að hann væri orðinn fyrirliði Man United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bruno Fernandes var ánægður með að heyra fréttirnar að hann yrði fyrirliði Manchester United í kvöld.
Bruno Fernandes var ánægður með að heyra fréttirnar að hann yrði fyrirliði Manchester United í kvöld. Getty/Matthew Peters

Bruno Fernandes er efni í alvöru leiðtoga og þykir strax vera farinn að minna á Roy Keane með því hvernig hann heldur liðsfélögum sínum á tánum. Ole Gunnar Solskjær hefur líka tekið eftir þessu og verðlaunar hann í kvöld.

Bruno Fernandes verður með fyrirliðaband Manchester United á móti Paris Saint Germain í Meistaradeildinni í kvöld en það er óhætt að segja að knattspyrnustjórinn hafi komið sínum manni skemmtilega á óvart.

Manchester United liðið verður án aðalfyrirliða síns í fyrsta leik sínum í Meistaradeildinni á þessari leiktíð því Harry Maguire er að glíma við meiðsli og ferðast ekki til Parísar.

Blaðamenn spurðu því knattspyrnuspyrnustjórann Ole Gunnar Solskjær út í fyrirliðastöðuna á fjölmiðlafundi í gær en hann var þá mættur á fundinn með Bruno Fernandes.

Ole Gunnar hafði hins vegar ekkert undirbúið Bruno Fernandes fyrir svar sitt.

„Fyrirliðinn situr hér við hliðina á mér,“ sagði Ole Gunnar Solskjær og bætti við: „Bruno verður fyrirliðinn á morgun,“ sagði Ole.

Bruno Fernandes var mjög hissa og það leyndi sér ekki að hann vissi ekkert um þessa ákvörðun knattspyrnustjórans síns. Þetta sést líka vel hér fyrir neðan.

„Ég bjóst ekki við þessu. Ég komst að þessu á sama tíma og þið,“ sagði Bruno Fernandes.

Bruno Fernandes hefur verið óhræddur við að skamma liðsfélaga sína, bæði inn á vellinum sem og á æfingum. Það fréttist líka af reiðikasti sem hann tók í hálfleik í 6-1 tapinu á móti Tottenham sem hann hefur ekki viljað staðfesta. Ole Gunnar tók hann í það minnsta af velli í hálfleiknum og það gekk greinilega ýmislegt á í búningsklefanum.

„Ég bara ólst svona upp. Svona verð ég að vera í lífinu og í fótboltanum líka. Þetta er minn karakter,“ sagði Bruno Fernandes aðspurður um það að skamma liðsfélaga sína þegar þeir eru að gera vitleysur.

Bruno Fernandes kom til Manchester United í janúar og er strax kominn með fyrirliðabandið. Hann hefur verið frábær frá fyrsta degi og kannski hefur Manchester United loksins fundið leiðtogann sem félagið hefur lengi leitað af.

Á þessu tímabili er Bruno Fernandes með 3 mörk og 2 stoðsendingar í 4 leikjum í ensku úrvalsdeildinni þar af var hann bæði með mark og stoðsendingu í endurkomusigrinum á Newcastle United um helgina.

Leikur Paris Saint Germain og Manchester United hefst klukkan 19.00 í kvöld og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 4. Leikir Dynamo Kiev og Juventus (Stöð 2 Sport 4, klukkan 16.55) annars vegar og leikur Lazio og Dortmund hins vegar (Stöð 2 Sport, klukkan 19.00) verða einnig sýndir beint á sportstöðvunum. Meistaradeildarmessan verður síðan frá 18.30 á Stöð 2 Sport 2 og strax á eftir henni verður farið yfir alla leiki dagsins í Meistaradeildarmörkunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×