Enski boltinn

Thiago færði Klopp slæmar fréttir eftir leik

Ísak Hallmundarson skrifar
Richarlison fékk rautt spjald fyrir þessa tæklingu á Thiago.
Richarlison fékk rautt spjald fyrir þessa tæklingu á Thiago. getty/ John Powell

Spænski landsliðsmaðurinn Thiago, sem gekk til liðs við Englandsmeistara Liverpool frá Bayern í sumar, fékk mikið lof fyrir frammistöðu sína gegn Everton í dag. Það setur þó strik í reikninginn að Thiago varð fyrir ljótri tæklingu af hálfu Richarlison undir lok leiksins, en Brasilíumaðurinn fékk beint rautt spjald fyrir vikið.

Thiago þurfti langa aðhlynningu á vellinum en var að lokum fær um að klára leikinn. Jurgen Klopp, þjálfari Liverpool, segir Thiago hafa fært sér slæmar fréttir eftir leik.

„Þegar ég var að labba af vellinum sagði Thiago mér að hann hefði meiðst eftir tæklinguna frá Richarlison. Það kemur í ljós hvort það reynist rétt en honum líður eins og hann sé meiddur og við þurfum að kanna það,“ sagði Klopp.

Á endursýningum lítur út fyrir að Spánverjinn hafi meiðst á hægra hné og er afar ólíklegt að hann taki þátt í leik Liverpool og Ajax í Meistaradeildinni næsta miðvikudag. 

Þetta eru ekki einu slæmu fréttirnar fyrir stuðningsmenn Liverpool en fyrr í leiknum þurfti varnarmaðurinn Virgil van Dijk að fara af velli vegna meiðsla eftir tæklingu frá Jordan Pickford, markmanni Everton. Til að bæta gráu ofan á svart var sigurmark Liverpool í uppbótartíma dæmt af vegna rangstöðu, en ansi litlu ef nokkru virtist muna að markið ætti að teljast gott og gilt. Sannarlega ekki góður dagur fyrir Englandsmeistaranna.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.