Erlent

Herða aðgerðir í London og víðar

Samúel Karl Ólason skrifar
Verið er að herða aðgerðir töluvert í London og víðar í Englandi.
Verið er að herða aðgerðir töluvert í London og víðar í Englandi. EPA/ANDY RAIN

Gripið verður til umfangsmikilla ferðatakmarkana og hertra sóttvarna í London á laugardagsmorgun. Fólki verður bannað að hitta aðra en fjölskyldumeðlimi sína innandyra, hvort sem það sé á heimilum eða krám. Þá verður íbúum ráðlagt að forðast almenningssamgöngur og dragar úr öllum ferðum sínum eins og mögulegt er.

Þá mun samkomubann utandyra miða við sex manns. Krám verður gert að loka klukkan tíu á kvöldin.

Smituðum hefur farið hratt fjölgandi í ýmsum hverfum London og sömuleiðis innlögnum á sjúkrahús. Fyrr í vikunni varaði Sadiq Khan, borgarstjóri, íbúa við því að hertari aðgerðir væru í vændum vegna útbreiðslunnar.

Helen Whately, heilbrigðisráðherra Bretlands, tilkynnti þingmönnum frá London um ákvörðunina í morgun, samkvæmt frétt Sky News.

Aðgerðirnar í London eru annars stigs aðgerðir en smittíðni þar er enn lægri en víða í norðurhluta Englands, eins og í Liverpool, þar sem búið er að grípa til þriðja stigs smitvarna.

Í frétt Reuters segir að verið sé að skoða að grípa einnig til hertra aðgerða í Manchester. Þegar eru annarsstigs aðgerðir virkar þar.

Búist er við því að ríkisstjórn Boris Johnson muni tilkynna aðgerðir sínar seinna í dag. Þær muni ná til milljóna íbúa í Englandi. Guardian segir að vísindamenn hafi varað við því að innlögnum og dauðsföllum muni fjölga á næstu vikum og hætta sé á því að heilbrgiðskerfi landsins muni ekki ráða við álagið. Þess vegna þurfi að herða aðgerðir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×