Erlent

Ætla sér að leysa ráð­gátuna um „ó­læsi­lega hrað­skrift“ Astridar Lind­gren

Atli Ísleifsson skrifar
Astrid Lindgren lést árið 2002 en hún var höfundur sagnanna um Emil í Kattholti, Línu Langsokk, Barnanna í Ólátagarði, Bróður míns Ljónshjarta og þannig mætti áfram telja. Myndin er frá 1975.
Astrid Lindgren lést árið 2002 en hún var höfundur sagnanna um Emil í Kattholti, Línu Langsokk, Barnanna í Ólátagarði, Bróður míns Ljónshjarta og þannig mætti áfram telja. Myndin er frá 1975. Getty

Hópur bókmenntafræðinga, tölvunarfræðinga og hraðritara í Svíþjóð hefur nú verið falið að ráða í og lesa úr frumhandritum barnabókahöfundarins Astridar Lindgren. Hún notaðist við sérstaka hraðskrift sem enginn annar gat lesið. Lindgren kallaði táknin „krumelunser“.

Sænskir fjölmiðlar segja að það verði bókmenntafræðingurinn Malin Nauwerck sem muni leiða starfið. „Það hefur verið sagt í mörg ár að nauðsynlegt sé að ráða í hraðritunarkóða Astridar Lindgren til að mögulegt sé að þróa fræðin í kringum bækur hennar áfram,“ er haft eftir Nauwerck.

Til stendur að ráða í um sjö hundruð hraðritunarstílabækur og koma þeim yfir á rafrænt form. Stílabækurnar hafa verið í vörslu Konunglega bókasafnsins í Stokkhólmi um margra áratuga skeið.

Nauwerck hyggst leita til hraðritara, sem flestir eru komnir á lífeyrisaldur, til að koma verkinu af stað og svo muni algóriþmar vonandi geta ráðið í skrift Lindgrens. Nauðsynlegt sé að ráðast í verkið nú, á meðan þeir sem hafa reynslu og störfuðu áður sem hraðritarar, eru enn á lífi.

Astrid Lindgren lést árið 2002 en hún var höfundur sagnanna um Emil í Kattholti, Línu Langsokk, Barnanna í Ólátagarði, Bróður míns Ljónshjarta og þannig mætti áfram telja.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×