Erlent

Rússar segja ásakanir Norðmanna „alvarlega ögrun“

Kjartan Kjartansson skrifar
Norska þinghúsið í Osló. Tölvuþrjótar komust í tölvupósta þingmanna og starfsmanna þingsins en ekki hefur verið gefið upp hversu miklu magni gagna var stolið í innbrotinu.
Norska þinghúsið í Osló. Tölvuþrjótar komust í tölvupósta þingmanna og starfsmanna þingsins en ekki hefur verið gefið upp hversu miklu magni gagna var stolið í innbrotinu. Vísir/EPA

Sendiráð Rússlands í Noregi sagði ásakanir norskra stjórnvalda um að Rússar hafi staðið að tölvuárás á norska þingið í sumar „alvarlega og vísvitandi ögrun“ sem muni skaða samskipti ríkjanna. Norski utanríkisráðherrann segir vísbendingar um aðild rússneskra stjórnvalda að innbrotinu.

Árásin var gerð 24. ágúst og var tölvupóstum þingmanna og starfsmanna þingsins stolið. Ine Eriksen Søreide, utanríkisráðherra Noregs, sagði í dag að ríkisstjórnin hefði upplýsingar undir höndum sem vísuðu á Rússa en að rannsókn stæði enn yfir.

Innbrotið í tölvukerfi þingsins hefur verið sett í samhengi við deilur norskra og rússneskra stjórnvalda um meintan rússneskan njósnara sem Norðmenn vísuðu úr landi fyrr í ágústmánuði.

Rússneska sendiráðið í Osló brást við ásökunum í yfirlýsingu sem það birti á Facebook-síðu sinni í dag. Sagði það ásakanirnar „óásættanlegar“ og „alvarlega og vísvitandi ögrun“. Sakaði það jafnframt norsk stjórnvöld um að hafa hafnað viðræðum um tölvuglæpi, að því er kemur fram í frétt rússnesku ríkisfréttastofunnar TASS.

Fyrr á þessu ári varaði norska herleyniþjónustan við því að stjórnvöld í Kreml reyndu að ala á sundrung með áróðursherferðum sem væri ætlað að veikja traust almennings á stjórnvöldum, kosningum og fjölmiðlum, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Tölvuþrjótar á vegum rússneskra stjórnvalda brutust inn í tölvupósta stjórnmálamanna Demókrataflokksins í Bandaríkjunum og láku til fjölmiðla fyrir forsetakosningarnar þar árið 2016. Þá háðu útsendarar Rússlands upplýsingahernað á samfélagsmiðlum sem bandarísk yfirvöld telja að hafi átt að sundra bandarísku þjóðinni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×