Erlent

Evrópu­sam­bandið hyggst beita Rúss­land þvingunum

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Eitrað var fyrir Alexei Navalní í ágúst síðastliðnum. 
Eitrað var fyrir Alexei Navalní í ágúst síðastliðnum.  EPA

Utanríkisráðherrar aðildarríkja Evrópusambandsins eru sagðir styðja tillögu Frakklands og Þýskalands um að beita Rússland viðskiptaþvingunum vegna eitrunar Alexeis Navalní, helsta stjórnarandstæðings rússneskra yfirvalda. Navalní hefur haldið því fram að rússnesk yfirvöld hafi fyrirskipað að eitrað skyldi fyrir honum.

Frakkar og Þjóðverjar lögðu fram tillögu þess efnis á fundi utanríkisráðherra aðildarríkja Evrópusambandsins í Lúxemborg í dag. Rök sem færð voru fyrir tillögunni voru meðal annars þau að yfirvöld í Moskvu hafi útskýrt það með fullnægjandi hætti hvers vegna taugaeitrið Novichok hafi verið í umferð.

Rannsókn þýskra stjórnvalda á eitrinu sem Navalní var byrlað leiddi í ljós að eitrið væri sovéska taugaeitrið Novichok, sem hefur verið ólöglegt í áraraðir. Efnavopnastofnunin, OPCW, hefur einnig haldið því fram að um Novichok hafi verið að ræða í eitrun Navalní.

Eitrunin litin alvarlegum augum af Evrópusambandinu

Samkvæmt frétt Reuters bendir hraðinn, sem tillagan hefur verið afgreidd á, til þess að ríki Vestur-Evrópu séu farin að líta aðgerðir Rússlands alvarlegri augum og ætli að fara í harðari aðgerðir gegn Rússlandi. Til að mynda tók það heilt ár fyrir Evrópusambandið að samþykkja viðskiptaþvinganir á hendur Rússum eftir taugaeitursárás á rússneska njósnarann Sergei Skripal og dóttur hans Júlí á Bretlandi árið 2018.

Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands, sagði í samtali við fréttamenn þegar hann mætti á fund utanríkisráðherranna fyrr í dag að ekki væri hægt að láta eitrun Navalní gleymast án afleiðinga.

„Frakkland og Þýskaland leggja til að ákveðnir einstaklingar sem vakið hafa athygli í þessu máli verði beittir þvingunum,“ sagði Maas.

Heimildamenn Reuters segja að mikil samstaða sé meðal utanríkisráðherra aðildarríkjanna 27 um að frysta eigur og setja ferðabann á nokkra hátt setta starfsmenn rússnesku leyniþjónustunnar.

Yfirvöld í Moskvu hafa neitað allri aðild að eitrun Navalní.

Rússneski þingmaðurinn Vladimir Dzhabarov sagði í dag að Rússland gæti svarað Evrópusambandinu í sömu mynt. Hann ítrekaði einnig skilaboð rússneskra yfirvalda, að engar haldbærar sannanir væru fyrir því að rússnesk yfirvöld bæru ábyrgð á byrluninni.


Tengdar fréttir

Segir Pútín hafa staðið að eiturárásinni

Alexei Navalní, rússneski stjórnarandstæðingurinn, sakar Vladímír Pútín, forseta Rússlands, um að hafa staðið að baki því að eitrað var fyrir honum með taugaeitrinu novichok í ágúst.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×