Enski boltinn

Spyr hvort Van Dijk sé of ánægður með sjálfan sig

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Virgil van Dijk hefur fengið talsvert mikla gagnrýni í upphafi tímabilsins.
Virgil van Dijk hefur fengið talsvert mikla gagnrýni í upphafi tímabilsins. getty/Peter Powell

Sol Campbell, fyrrverandi leikmaður Arsenal, Tottenham og fleiri liða, óttast að Virgil van Dijk, varnarmaður Liverpool, sé orðinn aðeins of ánægður með sjálfan sig.

Van Dijk hefur átt nokkuð erfitt uppdráttar í upphafi tímabils, sérstaklega í leiknum gegn Aston Villa um þarsíðustu helgi sem Liverpool tapaði stórt, 7-2.

Campbell segir að Van Dijk hafi kannski ekki fengið nógu erfið verkefni og hafi því orðið full kærulaus.

„Hann hefur allt sem varnarmaður þarf að hafa og þetta virðist svo auðvelt fyrir hann. Kannski hefur hann ekki fengið nógu stórar áskoranir, verið prófaður nógu mikið,“ sagði Campbell við The Athletic.

„Ef þú þarft ekki að hafa áhyggjur af því að framherjar geri þér erfitt fyrir slakarðu aðeins á. Það er mannlegt. Kannski á þetta við um Liverpool-liðið í heild sinni. En ég er viss um að Jürgen Klopp kemur þeim aftur á beinu brautina.“

Campbell ýjar að því að Van Dijk hefði ekki staðið jafn mikið upp úr þegar fleiri góðir miðverðir voru í ensku úrvalsdeildinni og hann gerir nú.

„Það hefði verið áhugavert að sjá hvort hann hefði staðið jafn mikið upp úr hefði hann spilað á mínum tíma þegar voru margir frábærir miðverðir að spila: Ég, John Terry, Tony Adams, Martin Keown, Jamie Carragher, Kolo Toure, Jaap Stam,“ sagði Campbell hógvær að vanda.

Næsti leikur Liverpool er gegn grönnunum í Everton í hádeginu næsta laugardag. Liverpool er með níu stig í ensku úrvalsdeildinni en Everton með fullt hús stiga (12).


Tengdar fréttir

Keïta með kórónuveiruna

Naby Keïta, miðjumaður Englandsmeistara Liverpool, hefur greinst með kórónuveiruna. Er hann þriðji leikmaður liðsins á skömmum tíma sem greinist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×