Enski boltinn

Héldu upp á afmælið með sex mínútna myndbandi af hrærðum Jürgen Klopp

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp með Meistaradeildarbikarinn eftir sigurinn á Tottenham í júní 2019.
Jürgen Klopp með Meistaradeildarbikarinn eftir sigurinn á Tottenham í júní 2019. Getty/Ian MacNicol

Stuðningsmenn Liverpool héldu örugglega upp á 8. október í gær en fyrir fimm árum þá breyttust örlög félagsins með einni bestu stjóraráðningunni í sögu félagsins.

Liverpool var búið að bíða í 25 ár eftir Englandsmeistaratitlinum þegar Jürgen Klopp mætti á svæðið og tók við stöðu knattspyrnustjóra Liverpool 8. október 2015.

Liverpool liðið varð síðan betra og betra á hverju ári, fór í úrslitaleik Evrópudeildarinnar vorið 2016 og í úrslitaleik Meistaradeildarinnar vorið 2018. Í bæði skiptin varð Liverpool hins vegar að sætta sig við silfurverðlaunin.

Liverpool vann loksins titil 1. júní 2019 eftir sigur á Tottenham í úrslitaleik Meistaradeildarinnar. Í framhaldinu varð liðið heimsmeistari félagsliða í lok ársins og vann síðan loksins enska meistaratitilinn í sumar.

Liverpool ákvað að halda upp á fimm ára afmæli stjórans með sex mínútuna mögnuðu myndbandi af hrærðum Jürgen Klopp.

Myndbandið, sem er hér fyrir ofan, sýnir sex fyrstu mínúturnar eftir að Liverpool tryggði sér sigur í Meistaradeildinni á Metropolitano Stadium í Madrid 1. júní 2019.

Myndavélin er allan tímann á Klopp og fylgir honum eftir á meðan hann þakkar fyrir leikinn og fagnar síðan titlinum með leikmönnum Liverpool liðsins.

Þarna má sjá Þjóðverjann fara í gegnum allan tilfinningaskalann og karlinn á oft mjög erfitt með sér enda stór stund fyrir hann og allt Liverpool liðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×