Erlent

Ályktun Íslands um Filippseyjar samþykkt samhljóða

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra. Vísir/EPA

Yfirvöld á Filippseyjum hafa skuldbundið sig til að vinna með Sameinuðu þjóðunum að umbótum í mannréttindamálum.

Ályktun Íslands um að mannréttindaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna beri að veita ríkisstjórn Rodrigos Duterte stuðning og aðstoð við umbótastörf var samþykkt samhljóða á fundi mannréttindaráðs SÞ í morgun.

Ályktunin var lögð fram í samstarfi við Filippseyjar en hún kveður á um að filippseysk stjórnvöld skuldbindi sig til að vinna með mannréttindafulltrúa SÞ.

„Á undanförnum árum höfum við beint kastljósinu að Filippseyjum og ástandi mannréttinda þar. Samþykkt ráðsins í morgun undirstrikar að þessi málafylgja okkar hefur skilað árangri því hún felur í sér að stjórnvöld á Filippseyjum taka upp mikilvægt samstarf við mannréttindafulltrúann með það að markmiði að bæta stöðu mannréttinda þar í landi,“ er haft eftir Guðlaugi Þór Þórðarsyni, utanríkis- og þróunarmálaráðherra á vef stjórnarráðsins.

Ísland beitti sér í júlí 2019 fyrir samþykkt ályktunar um mannréttindaástandið á Filippseyjum. Með henni lýsti ráðið formlega yfir áhyggjum af ástandinu í landinu, hvatti stjórnvöld til að stöðva aftökur á fólki án dóms og laga í nafni herferðar gegn fíkniefnum og draga þá til ábyrgðar sem stæðu fyrir slíku. Stjórnvöld á Filippseyjum brugðust í fyrstu ókvæða við en nú virðist vera komið annað hljóð í strokkinn.

Fulltrúar ýmissa landa sem tóku til máls við atkvæðagreiðsluna voru sammála um mikilvægi ályktunarinnar. Öllu skipti þó að stjórnvöld á Filippseyjum láti verkin tala.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.