Erlent

Fyrr­ver­and­i yf­ir­mað­ur CIA sak­ar yf­ir­mann leyn­i­þjón­ust­u­stofn­an­a um að gang­a er­ind­a Trump

Samúel Karl Ólason skrifar
John Brennan, fyrrverandi yfirmaður CIA, segir núverandi yfirmann leyniþjónustumála beita sérstaklega völdum upplýsingum, án semhengis, í kosningabaráttu Trump.
John Brennan, fyrrverandi yfirmaður CIA, segir núverandi yfirmann leyniþjónustumála beita sérstaklega völdum upplýsingum, án semhengis, í kosningabaráttu Trump. EPA/Shawn Thew

John Brennan, fyrrverandi yfirmaður Leyniþjónustu Bandaríkjanna (CIA), hefur gagnrýnt John Ratcliffe, núverandi yfirmann leyniþjónustustofnanna Bandaríkjanna, harðlega og segir hann hafa opinberað sérstaklega valin skjöl í pólitískum tilgangi. Málið snýr sérstaklega að minnisblaði sem Brennan skrifaði árið 2016 og sneri að' Hillary Clinton og Rússlandi.

Í blaðinu skrifaði Brennan um það að leyniþjónusta Rússlands héldi því fram að Hillary Clinton, mótframbjóðandi Trump í forsetakosningunum 2016, ætlaði sér að skapa vandræði fyrir Trump með því að saka hann um að starfa með Rússum í að hafa afskipti af kosningunum. Markmiðið væri að hylma yfir tölvupóstskandal hennar.

Í viðtali á CNN í gærkvöldi gagnrýndi Brennan Ratcliffe fyrir að opinbera sérvalin leynileg gögn og án samhengis.

„Þetta er hannað til að hagnast pólitískum hagsmunum Donald Trump og bandamönnum hans í Repúblikanaflokknum,“ sagði Brennan.

Hann sagði enn fremur að umrætt minnisblað sneri að fundi Brennan með Barack Obama, þáverandi forseta, sem fjallaði um hvað yfirvöld í Rússlandi væru að gera í tengslum við forsetakosningarnar 2016.

Brennan sagði sömuleiðis að umræddar upplýsingar um ásakanir Rússa gegn Clinton hafi verið til að sýna að Bandaríkjamenn hefðu góðan aðgang að leyniþjónustusamfélagi Rússlands og væri til marks um hvað þeir væru að tala um.

Hann ítrekaði einnig að þó Hillary Clinton hafi ætlað sér að beina sjónum Bandaríkjamanna að tengslum milli Trump og Rússa, væri ekkert ólöglegt við það.

„John Ratcliffe og aðrir eru að reyna að stilla þessu upp sem ólöglegu athæfi sem Alríkislögregla Bandaríkjanna eigi að rannsaka. Nei, þetta var kosningabarátta,“ sagði Brennan.

Trump skipaði Ratcliffe í stöðuna í fyrrasumar. Hann hafði enga reynslu af leyniþjónustumálum og var áður þingmaður frá Texas. Ratcliffe hefur þar að auki verið ötull stuðningsmaður og málsvari Trump.

Hann segist hafa opinberað umrædd gögn að skipun Trump.

Trump-liðar hafa stokkið á opinberanir Ratcliffe og notað þær til að halda því fram að ALríkislögregla Bandaríkjanna ætti að rannsaka samsæriskenningar sem snúa að Clinton og því að njósnað hafi verið um framboð Trump.

Sömuleiðis hafa upplýsingarnar verið notaðar til að grafa undan þeirri niðurstöðu leyniþjónustusamfélags Bandaríkjanna að Rússar hafi hjálpað Trump í forsetakosningunum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×