Erlent

Delta mun valda usla í Mexíkó og stefna svo á Bandaríkin

Samúel Karl Ólason skrifar
Þessi mynd, sem tekin var í gær, sýnir Delta suður af Kúbu. Fellibylurinn stefnir á Mexíkó og síðan Bandaríkin.
Þessi mynd, sem tekin var í gær, sýnir Delta suður af Kúbu. Fellibylurinn stefnir á Mexíkó og síðan Bandaríkin. AP/NASA

Fellibylurinn Delta stefnir nú hraðbyri að ströndum Mexíkó og mun ná landi í Bandaríkjunum seinna í vikunni. Delta er annars stigs fellibylur en búist er við því að hann muni safna krafti í vikunni. Samkvæmt spálíkönum gæti fellibylurinn verið orðinn fjórða stigs þegar hann skellur á Bandaríkjunum.

Íbúar Yucatanskagans í Mexíkó munu byrja að finna fyrir áhrifum Delta í fyrramálið. Samkvæmt frétt Veðurrásar Bandaríkjanna gæti Delta verið öflugasti fellibylur sem fer yfir svæðið í fimmtán ár.

Í samtali við AP fréttaveituna segir veðurfræðingur hjá Fellibyljamiðstöð Bandaríkjanna að Delta gæti safnað miklum krafti áður en fellibylurinn nær landi í Mexíkó. Samkvæmt spám mun sjávarborð hækka um allt að tvo til þrjá metra og mikil rigning gæti valdið skyndiflóðum.

Rýming íbúa af sérstökum hættusvæðum er hafin.

Enn öflugri seinna í vikunni

Sérfræðingar búast við því að Delta muni síðan safna miklum krafti frá hlýjum sjó í Mexíkóflóa og stefna hraðbyri að Bandaríkjunum. Miðað við núverandi stefnu gæti Delta náð landi allt frá Louisiana til Flórída.

Delta er 25. hitabeltislægðin sem hefur myndast yfir Atlantshafinu og fengið nafn þetta árið. Aldrei áður hafa svo margar lægðir fengið nafn á þessum tíma árs. Metið sem Delta sló var frá 2005, þegar 25. lægðin myndaðist þann 15. nóvember.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×