Íslenski boltinn

„Eina sem að maður leyfir sér er að skreppa í Bónus“

Sindri Sverrisson skrifar
Birkir Már Sævarsson spilaði sig aftur inn í landsliðið með frammistöðu sinni með Val í haust.
Birkir Már Sævarsson spilaði sig aftur inn í landsliðið með frammistöðu sinni með Val í haust. VÍSIR/VILHELM

Birkir Már Sævarsson ræddi við Vísi um endurkomuna í landsliðið, stórsigurinn á Gróttu og þá staðreynd að Valur gæti mögulega orðið Íslandsmeistari í næstu umferð.

Valur er átta stigum á undan FH þegar fjórar umferðir eru eftir, svo að ef að FH vinnur ekki KA í næstu umferð dugar Val að vinna Fylki í Árbænum til að landa titlinum.

„Við erum náttúrulega ekki búnir að vinna neitt enn þannig að við erum bara að hugsa um að klára þetta almennilega og vinna þá leiki sem við eigum eftir. Maður getur ekki tekið neinu sem gefnu,“ sagði Birkir eftir 6-0 sigurinn á Gróttu í kvöld.

„Fyrir einhverjum árum síðan var Keflavík með svona forystu þegar það voru 3-4 leikir eftir en klúðruðu því, svo við vitum alveg að það er hægt að klúðra svona forystu ef maður er ekki á tánum. Við förum bara í næsta leik til að vinna hann,“ sagði Birkir.

Frábært að spila með Aroni

Valsmenn fóru á kostum á köflum í leiknum við Gróttu en slökuðu á þess á milli. Aron Bjarnason skoraði tvö mörk og lagði upp tvö til viðbótar, en hann hefur komið frábærlega inn í liðið fyrir framan Birki á hægri kantinum.

Birkir Már Sævarsson átti fast sæti í stöðu hægri bakvarðar hjá landsliðinu um langt árabil.VÍSIR/VILHELM

„Aron er auðvitað frábær fótboltamaður og það hefur verið frábært að spila með honum á þessu tímabili. Við náum mjög vel saman. Hann og hinir framherjarnir hafa líka náð mjög vel saman og þetta er allt búið að smella – verið góður stígandi í þessu allt tímabilið.

Þetta var mjög heilsteyptur leikur í kvöld, við skoruðum fullt af mörkum og héldum hreinu eins og við vildum gera. Mér fannst við slaka aðeins of mikið á eftir góðan fyrri hluta fyrri hálfleiks, og við vorum lélegir í byrjun seinni, þangað til við skoruðum fjórða markið og þá fannst mér við geta keyrt yfir þá í lokin,“ sagði Birkir.

Mjög glaður þegar ég fékk símtalið

Birkir var valinn í landsliðið á föstudaginn, fyrir EM-umspilsleikinn við Rúmeníu næsta fimmtudag og leiki við Danmörku og Belgíu í Þjóðadeildinni í kjölfarið, eftir að hafa farið á kostum með Val að undanförnu.

„Ég var mjög glaður þegar ég fékk símtalið og stefni á að gera mitt allra besta á þessum örfáu æfingum fram að Rúmeníuleiknum. Svo sjáum við hverju það skilar,“ sagði Birkir. Hann hefur leikið 92 A-landsleiki og er öllum hnútum kunnugur í landsliðinu þó að hann hafi ekki átt fast sæti í hópnum hjá Erik Hamrén.

Birkir á að baki 92 A-landsleiki og er í þriðja sæti yfir leikjahæstu landsliðskarla Íslands.VÍSIR/VILHELM

„Jú, það er auðvitað kostur að vera búinn að spila nokkra landsleiki og koma líka inn í hóp þar sem maður þekkir nánast alla. Byrjunarliðið frá EM er allt þarna samankomið þannig að maður þekkir vel til og verður fljótur að koma sér inn í allt saman,“ sagði Birkir.

Búinn að passa mig í allt sumar

Nú þegar kórónuveirusmitum hefur fjölgað ört á Íslandi síðustu vikur er sífellt meiri hætta á því fyrir Birki líkt og aðra að lenda í sóttkví, og missa þar með af landsleikjunum. Hefur hann farið sérstaklega varlega síðustu daga?

„Ég er búinn að passa mig í allt sumar. Konan mín er í áhættuhóp þannig að við þurfum að passa okkur aukalega og það er ekkert óþarfa útstáelsi á okkur, en við erum með stóra fjölskyldu þannig að maður verður að fara í búð. Það er þá betra að ég geri það en hún. Þannig að það eina sem að maður leyfir sér er að skreppa í Bónus.“


Tengdar fréttir

Leik lokið: Valur - Grótta 6-0 | Hlegið hátt á Hlíðarenda

Valsmenn hafa hent að mörgu gaman í Pepsi Max-deild karla í fótbolta í sumar og fóru illa með Gróttu á Hlíðarenda í kvöld þar sem staðan var orðin 3-0 eftir 25 mínútna leik. Mögulega verða þeir meistarar í næstu umferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×