Umfjöllun og viðtöl: ÍA - FH 0-4 | Lennon með þrennu og nálgast markametið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Skagamenn réðu lítið við Steven Lennon í dag.
Skagamenn réðu lítið við Steven Lennon í dag. vísir/hag

Steven Lennon skoraði þrennu þegar FH vann 0-4 sigur á ÍA á Norðurálsvellinum á Akranesi í dag. Jónatan Ingi Jónsson var einnig á skotskónum.

Lokatölurnar gefa ekki rétta mynd af leiknum en Skagamenn voru ágætir úti á vellinum. FH-ingar voru hins vegar meira afgerandi í báðum vítateigunum. ÍA lék án Tryggva Hrafns Haraldssonar og Stefáns Teits Þórðarsonar, sem tóku út leikbann, og þeirra var sárt saknað.

Með sigrinum minnkaði FH forskot Vals á toppi Pepsi Max-deildarinnar niður fimm stig. Valsmenn eiga þó leik til góða. ÍA er í 8. sæti deildarinnar með 21 stig og hefur fengið á sig 41 mark, flest allra liða.

Skagamenn byrjuðu leikinn betur en voru heldur bitlitlir án Tryggva og Stefáns Teits og ógnuðu marki FH-inga ekki mikið.

Gestirnir voru frekar stirðir og stífir framan af en náðu undirtökunum um miðbik fyrri hálfleiks og juku pressuna.

Á 34. mínútu kom Lennon FH yfir. Guðmann Þórisson átti þá langa sendingu upp í hægra hornið á Pétur Viðarsson, hann sendi fyrir á Lennon sem tók við boltanum og skoraði með skoti í fjærhornið. Skotinn fékk óskiljanlega mikinn tíma til að athafna sig og nýtti hann til hins ítrasta.

Strax í upphafi seinni hálfleiks átti Aron Kristófer Lárusson fast skot að marki FH sem Gunnar Nielsen varði. Það reyndist hættulegasta færi ÍA í seinni hálfleiks. Skagamenn spiluðu ágætlega og gáfu allt í leikinn en fundu ekki leiðir í gegnum vörn FH-inga.

Á 76. mínútu kom Jónatan Ingi FH í 0-2 með skalla eftir góða fyrirgjöf varamannsins Baldurs Loga Guðlaugssonar. Tveimur mínútum síðar fengu FH-ingar vítaspyrnu þegar skot Eggerts Gunnþórs Jónssonar fór í hönd Ísaks Snæs Þorvaldssonar. Lennon fór á punktinn og skoraði af öryggi.

Lennon skoraði sitt þriðja mark og fjórða mark FH á lokamínútunni eftir að hann og Baldur Logi sluppu í gengum vörn ÍA. Lennon er markahæstur í Pepsi Max-deildinni með sautján mörk og vantar aðeins þrjú mörk til að slá markametið í efstu deild.

Af hverju vann FH?

FH-ingar hafa spilað betur en unnu þrátt fyrir það öruggan sigur. Það segir sitt um getumuninn á milli þessara liða, sérstaklega þegar tveir bestu leikmenn Skagamanna eru fjarverandi. ÍA reyndi og gaf allt í leikinn en það var á endanum ekki nálægt því að vera nóg.

Hverjir stóðu upp úr?

Lennon var alltaf ógnandi og skoraði sína aðra þrennu í sumar. Þórir Jóhann Helgason heldur áfram að spila vel og vörnin hjá FH var góð með Guðmund Kristjánsson sem besta mann. Þá átti Baldur Logi góða innkomu og lagði upp tvö mörk.

Brynjar Snær Pálsson var besti leikmaður ÍA og sá sem var líklegastur til að búa eitthvað til.

Hvað gekk illa?

ÍA hefur skorað helling af mörkum í sumar en án Tryggva og Stefáns Teits var lítið bit í sóknarleiknum. Varnarleikur Skagamanna var svo ótraustur eins og í flestum leikjum í sumar.

Hvað gerist næst?

Bæði lið eiga útileik fimmtudaginn 15. október. ÍA mætir Stjörnunni í Garðabænum á meðan FH sækir KA heim.

Lennon: Viljum vinna alla leiki sem við getum

Steven Lennon er á góðri leið með að vinna Gullskóinn.vísir/hulda margrét

Hljóðið var gott í Steven Lennon eftir leikinn á Akranesi í dag.

„Ég er hæstánægður. Völlurinn var erfiður og þetta snerist allt um að fá þrjú stig,“ sagði Lennon.

FH hefur spilað betur í sumar en þrátt fyrir það var sigurinn aldrei í hættu.

„Við vissum að þetta yrði erfitt á þessum velli. Við gerðum það sem við þurftum og bættum við mörkum undir lokin,“ sagði Lennon.

Hann hefur nú skorað sautján mörk í Pepsi Max-deildinni í sumar. Markametið í efstu deild er nítján mörk og Lennon hefur fjóra leiki til að slá það.

„Að sjálfsögðu verður það aftast í huganum en það er ekki það mikilvægasta. Við viljum enda eins ofarlega og mögulegt er. En ef ég bæti það verður það fínt en ég einbeiti mér ekki of mikið að því. Ég vil bara vinna leikina,“ sagði Lennon.

Hann segir að möguleikinn á Íslandsmeistaratitlinum sé lítill en vill að FH-ingar endi tímabilið með stæl.

„Við viljum enda þetta vel og vinna alla leiki sem við getum. Valur er líklega of langt á undan okkur en við verðum að halda áfram,“ sagði Lennon að lokum.

Jóhannes Karl: Gaf ekki rétta mynd af leiknum

Þrátt fyrir 0-4 tap fyrir FH var Jóhannes Karl Guðjónsson sáttur með ýmislegt í leik ÍA.vísir/bára

Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA, sagði að tapið fyrir FH hafi verið of stórt.

„Mér fannst þetta ekki gefa alveg rétta mynd af leiknum. En auðvitað höfðu FH-ingar gæði til að klára þessi færi og gerðu það vel. Þeir eru með ansi öfluga framlínu,“ sagði Jóhannes Karl eftir leik.

„Í fyrri hálfleik var mikið jafnræði með liðunum og við komust í fullt af góðum stöðum. Við komust aftur fyrir vörn þeirra en náðum ekki að nýta það. Mér fannst við samt eiga að fá víti þegar Aron gaf fyrir og boltinn fór í hönd FH-ings. Það var klárlega víti og hefði breytt gangi leiksins. Það var sárt að fá þetta mark á sig í fyrri hálfleik.“

Staðan var 0-1 þar til á 76. mínútu þegar Steven Lennon skoraði öðru sinni. Eftir það var róður Skagamanna afar erfiður.

„Það var svekkjandi að finna að um leið og FH skoraði annað markið misstu menn aðeins trúna. Auðvitað vill maður ekki sjá það. En eftir annað markið varð þetta erfitt og ég tala nú ekki um eftir þriðja markið. Við gerðum breytingar undir lokin, fórum í 4-4-2, reyndum að komast inn í leikinn en fengum það í andlitið,“ sagði Jóhannes Karl.

„Niðurstaðan var 0-4 tap en ég var ánægður með fyrri hálfleikinn og það var alveg slatti af hlutum sem ég var ánægður með og við getum tekið með okkur.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira