Erlent

Kim Jong Un sendi Donald Trump „ástarbréf“

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti og Kim Jong Un leiðtogi Norður-Kóreu við heimsókn Trumps til Norður-Kóreu í júní 2019.
Donald Trump Bandaríkjaforseti og Kim Jong Un leiðtogi Norður-Kóreu við heimsókn Trumps til Norður-Kóreu í júní 2019. Dong-A Ilbo/Getty Images

Í leynilegu bréfi sem Kim Jong Un, leiðtogi Norður-Kóreu, sendi Donald Trump Bandaríkjaforseta í desember 2018 líkir hann sambandi þeirra félaga við blómstrandi Hollywood-ástarsamband. Þá skrifaði hann að framtíðarfundir með Trump myndu líkjast „senu úr fantasíukvikmynd.“

Á sama tíma var mikil hernaðaruppbygging í gangi í Norður-Kóreu. Verið var að grafa neðanjarðargöng og byggja vopnageymslur neðanjarðar til þess að hægt væri að færa vopn á milli staða. Þá var einnig verið að reisa nýjar byggingar við kjarnorkuver nærri höfuðborg landsins, þar sem verið var að auðga úran fyrir allt að fimmtán nýjar kjarnorkusprengjur. Þetta hefur The Washington Post eftir opinberum starfsmönnum Bandaríkjanna og Suður-Kóreu og vísar einnig í skýrslu sem gerð var af Sameinuðu þjóðunum.

Fram kemur í skýrslunni að frá því að Kim og Trump fóru að funda árið 2018 hafi Norður-Kórea hætt að prófa kjarnavopn svo til sæist en hafi hins vegar ekki hætt þróun þeirra. Ný gögn sýni jafnframt fram á að Kim hafi nýtt sér athyglina sem viðræðurnar við Bandaríkin fengu til þess að fela sín hættulegustu vopn og verja þau frá mögulegum árásum.

Markmið viðræðna Bandaríkjanna við Norður-Kóreu var að útrýma kjarnorkuvopnum á Kóreuskaganum og þó svo að það virðist að einhverju leiti hafa tekist, vegna þess að engar prófanir hafi verið gerðar á þeim af Norður-Kóreu, er það ekki svo. Enn búi ríkið yfir fjölda kjarnorkuvopna, ekki einu slíku hafi verið eytt og enn hafi eldflaugaverksmiðjum ekki verið lokað.

Sérfræðingar segja að viðræðurnar hafi aðeins skilað því að Norður-Kórea sé betur vopnuð og að kjarnorkuvopnabyrgðir landsins séu dreifðar um landið fyrir tilstilli neðanjarðarganganna. Þá hafi Kim einnig notið góðs af vinskapnum við Trump.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×