Íslenski boltinn

Sigraðist á krabbameini og þremur krossbandaslitum: „Alltaf ofboðslega gaman að koma til baka“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mist Edvardsdóttir hefur sigrast á miklu mótlæti.
Mist Edvardsdóttir hefur sigrast á miklu mótlæti. vísir/einar árnason

Mist Edvardsdóttir skoraði fernu, þar af þrjú skallamörk, þegar Valur vann stórsigur á Fylki, 0-7, í Pepsi Max-deild kvenna á laugardaginn.

Mist hefur gengið í gegnum ýmislegt á undanförnum árum en auk þess að fá krabbamein sleit hún krossband í hné í þrígang. 

„Þetta hefur verið rússíbanareið, ég held það sé óhætt að segja það. Svona verkefni eru kannski erfiðust fyrir hausinn en það er alltaf ofboðslega gaman að koma til baka,“ sagði Mist í samtali við Guðjón Guðmundsson á Hlíðarenda.

Ekki syrgja það sem ekki varð

„Það er alveg líkamlega erfitt að koma sér til baka eftir svona meiðsli en aðalverkefnið er hausinn og að sætta sig við að fjögur til fimm ár sem hefðu átt að vera manns bestu hafi farið í krossbönd og krabbamein. Verkefnið er kannski bara það að hætta að syrgja það sem ekki varð og njóta þess sem er og geta spilað fótbolta.“

Mist segist hafa óttast um fótboltaferilinn og meiðslin myndu binda endi á hann.

„Það hvarflaði alveg að mér að þetta væri búið. Ég ætla ekki að segja einhverjar hetjusögur að það hafi aldrei komið upp í hausinn. En sú hugsun að ég myndi taka þá ákvörðun kom aldrei. Maður óttaðist alveg að maður kæmist ekki aftur af stað en ég var aldrei á þeim buxunum að ákveða sjálf að hætta,“ sagði Mist.

Erfitt að koma sér á lappir aftur

Hún greindist með eitlakrabbamein 2014, þegar hún var aðeins 23 ára.

„Það var mikið áfall og það var akkúrat á þeim tíma sem mér fannst ég vera að fá alvöru tækifæri með A-landsliðinu. Höggið að detta út úr fótboltanum þá var mikið. En svo ætlar maður að koma sér aftur af stað og gerði það. Að slíta alltaf í kjölfarið, erfiðasta er kannski að fá þessi endurteknu högg og koma sér á lappir aftur,“ sagði Mist sem hefur leikið þrettán A-landsleiki.

Þetta er úrslitaleikur

Mist og stöllur hennar í Val mæta Breiðabliki í stórleik á laugardaginn þar sem það ræðst væntanlega hvort liðið verður Íslandsmeistari.

„Ég er drulluspennt fyrir þessu. Við höfum beðið eftir þessu í allt sumar. Leikmenn beggja liða eru eflaust búnir að segja sömu klisjuna í allt sumar, að þeir horfi bara á næsta leik og þetta sé ekki úrslitaleikur. En núna eru bæði lið búin að koma sér í þá stöðu að þetta er úrslitaleikur og þetta er næsti leikur. Ég held að það sé þvílíkur spenningur í öllum,“ sagði Mist.

Veit ekki hvort ég myndi velja mig í liðið

En býst hún við að fá tækifæri í leiknum stóra á laugardaginn?

„Ég veit það ekki. Í fyllstu hreinskilni veit ég ekki hvort ég myndi velja mig í liðið sjálf. Eina sem ég geri kröfu á er að Eiður [Benedikt Eiríksson] og Pétur [Pétursson, þjálfarar Vals] velji liðið samkvæmt sinni sannfæringu og það lið sem þeir halda að sé best til þess fallið að vinna á laugardaginn. Ef ég fæ einhverjar mínútur verður það bara gaman,“ svaraði Mist.

Viðtalið í heild sinni má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Sportpakkinn - Viðtal við Mist

Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.