Erlent

Skattamál Trump þjóðaröryggismál að mati Pelosi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Nancy Pelosi og Donald Trump.
Nancy Pelosi og Donald Trump. Vísir/Getty

Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings og æðsti kjörni fulltrúi Demókrata á landsvísu í Bandaríkjunum segir að skattamál Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, varði þjóðaröryggi Bandaríkjanna.

New York Times birti í gær ítarlega umfjöllun um skattamál Trump þar sem kom meðal annars fram að forsetinn sé ábyrgur fyrir 421 milljón dala lánum. Gjalddagar flestra þessara lána eru á næstu fjórum árum. Ofan á það bætist svo hundrað milljón dala fasteignaveð sem rennur út árið 2022. Demókratar á þingi hafa gripið boltann á lofti og sagt að um þjóðaröryggismál sé að ræða, ekki gangi að forseti Bandaríkjanna skuldi svo háar fjárhæðir.

Undir þetta tekur Pelosi og segir að umfjöllun Times vekji upp spurningar hverjum Trump skuldi þessar fjárhæðir, hvort um sé að ræða ákveðin ríki og hvort að lánardrottnar hans eigi þá mögulega eitthvað inni hjá sitjandi forseta Bandaríkjanna.

Þá spurði hún sérstaklega hvort að það gæti verið að Trump skuldaði Vladimír Pútín, forseta Rússlands, eitthvað, hvort sem það væri fjárhagslegt eða persónulegt.

Vert er að taka fram að ekkert í umfjöllun New York Times bendir til þess að Trump hafið þegið áður óþekktar fjárhæðir frá Rússlandi, þó að fram komi að hann hafi haft einhverjar tekjur erlendis frá.

Umfjöllun New York Times fór í loftið rétt fyrir fyrstu kappræður Trump og Joe Biden, frambjóðanda demókrata, en þær fara fram aðfaranótt næstkomandi miðvikudags, að íslenskum tíma.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×