Íslenski boltinn

Rúnar Páll: Mikilvægast af öllu var að fá þessa þrjá punkta

Árni Jóhannsson skrifar
Rúnar Páll

Þjálfari Stjörnunnar var sammála blaðamanni í því að hans menn hafi verið slakari í seinni hálfleik en betri í þeim fyrri og því gífurlega gott að taka sigurinn í dag úr því sem komið var þegar Stjarnan heimsótti HK í Pepsi-Max deild karla í dag.

„Já ég get alveg viðurkennt það að við vorum betri í fyrri en í þeim seinni. Þeir náttúrlega keyrðu á okkur og við réðum bara ekkert við þetta. Þeir náðu ekki mörgum færum en fengu þessar hornspyrnur sem þeir eru hrikalega öflugir í og þetta er bara ekki nógu gott hjá okkur í vörninni í föstu leikatriðunum. Við hleypum þeim inn í leikinn og frábært að fá þetta mark hérna í lokin. Ótrúlega mikilvægt hjá okkur og gefur okkur meira sjálfstraust í þessa baráttu“.

Blaðamaður greip það á lofti að það hafi verið mikilvægt að vinna þennan leik eftir útreiðina sem Stjörnumenn hafa fengið undanfarið og Rúnar var sammála því.

„Já já. Þungt að tapa svona. Það er hluti af þessum leik að tapa og alltaf spurning um það hvernig menn stíga upp eftir svona útreið síðustu tvo leiki þar sem frammistaðan var ekki góð. Mikilvægast af öllu var að fá þessa þrjá punkta. Við erum gríðarlega ánægðir með það og við erum enn þá bara í ágætis málum“.

Rúnar var spurður því næst um framhaldið á deildinni en Stjarnan hefur leikið færri leiki en flest liðin í topp sex og því var hann spurður hvort þeir væru bara ekki í þokkalegum málum.

„Jú við eigum tvo leiki á Fylki og einn á einhver lið en það skiptir ekki öllu máli. Við þurfum að klára okkar leiki og reyna að spila þessa leiki. Næsti leikur er á móti FH á fimmtudag þannig að það er stutt í hann og þar erum við að mæta hörkuliði FH sem hafa bullandi sjálfstraust og hafa fengið fín úrslit þrátt fyrir að hafa tapað fyrir Val stórt eins og við. Fleiri en við sem töpum stórt fyrir Val [Rúnar brosti út í annað þegar hann sagði þetta] Við þurfum bara að hugsa um okkar leik og fá frammistöðuna í gang. Hún hefur ekki verið í lagi í síðustu leikjum. Þrátt fyrir að hún hafi verið ágæt bróðurpartinn af þessum leik en HK menn eru með öflugt lið“.

„Síðasti leikur á móti Breiðablik t.d. þar var það taktískt upplegg hjá okkur Óla sem fór með þetta. Við vorum alltof aftarlega og reyndum eitthvað að breyta leikstílnum en við bara tökum það á okkur. Hér tókum við þrjú í dag, fengum eitt stig í fyrra, erfitt að koma hingað. Þrátt fyrir frábærar aðstæðu reyndar en það er sætast af þessu að fá þrjú stig“.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.