Erlent

Á­rásar­maðurinn sagður hafa verið á eftir starfs­mönnum Charli­e Hebdo

Kjartan Kjartansson skrifar
Vopnaðir lögreglumenn standa vörð utan við bygginguna sem hýsti áður ritstjórnarskrifstofur Charlie Hebdo í Frakklandi. Gagnrýni hefur komið fram um að lögreglan hafi vanmetið öryggisógn á svæðinu eftir árásina í gær sem virðist tengjast hryðjuverkunum 2015 og réttarhöldum vegna þeirra.
Vopnaðir lögreglumenn standa vörð utan við bygginguna sem hýsti áður ritstjórnarskrifstofur Charlie Hebdo í Frakklandi. Gagnrýni hefur komið fram um að lögreglan hafi vanmetið öryggisógn á svæðinu eftir árásina í gær sem virðist tengjast hryðjuverkunum 2015 og réttarhöldum vegna þeirra. Vísir/EPA

Ungur maður sem er talinn hafa sært tvennt með kjötöxi utan við fyrri skrifstofur skopritsins Charlie Hebdo í París í gær segir lögreglu að skotmark hans hafi verið starfsmenn blaðsins. Skrifstofur blaðsins voru fluttar eftir að íslamskir hryðjuverkamenn myrtu tólf manns þar vegna skopmynda af Múhammeð spámanni árið 2015.

Sjö manns eru enn í haldi í tengslum við rannsókn á stunguárásinni. Hún er rannsökuð sem hryðjuverk. Sá grunaði er sagður átján ára gamall maður af pakistönskum ættum. Gerald Darmanin, innanríkisráðherra, segir að hann hafi komið til Frakklands án þess að vera í fylgd fullorðinna þegar hann var enn undir lögaldri fyrir þremur árum.

Reuters-fréttastofan hefur eftir heimildarmanni sínum innan frönsku lögreglunnar að grunaði árásarmaðurinn hafi sagst vilja vinna starfsmönnum Charlie Hebdo mein. Réttarhöld fara nú fram yfir fjórtán manns í tengslum við hryðjuverkin fyrir fimm árum. Ekkjur hryðjuverkamannanna, sem féllu allir í bardaga við lögreglu á sínum tíma, báru vitni í gær.

Ritstjórn Charlie Hebdo ákvað að birta aftur skopmyndir af Múhammeð spámanni sem reittu hryðjuverkamennina til reiði á sínum tíma í tilefni af réttarhöldunum nú. Hryðjuverkasamtökin al-Qaeda, sem lýstu yfir ábyrgð á fjöldamorðinu árið 2015, hafa haft í hótunum við blaðið vegna þess.

Myndver sjónvarpsframleiðslufyrirtækis er nú í byggingunni þar sem skrifstofur Charlie Hebdo voru áður. Maðurinn særði tvo starfsmenn þess, karl og konu, sem voru úti að reykja fyrir utan bygginguna með kjötöxi. Fólkið hefur verið sagt alvarlega slasað en ekki í lífshættu.

Tengd skjölAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.