Innlent

Hrottalegar lýsingar í sakamáli á Suðurlandi

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Málið verður til meðferðar í Héraðsdómi Suðurlands eftir helgi þar sem ákærðu koma fyrir dóminn.
Málið verður til meðferðar í Héraðsdómi Suðurlands eftir helgi þar sem ákærðu koma fyrir dóminn. Vísir/Vilhelm

Héraðssaksóknari hefur ákært fjórar konur og einn karlmann fyrir ólögmæta nauðung, húsbrot og kynferðislega áreitni. Þau eru ákærð fyrir að hafa ruðst óboðin inn á heimili manns árið 2016 og veist með ofbeldi að honum þar sem hann lá sofandi í rúmi sínu. 

Í ákærunni sem fréttastofa hefur undir höndum segir að fjögur þeirra hafi haldið manninum nauðugum á höndum og fótum, snúið upp á hendur hans, klipið hann og slegið víðs vegar um líkamann, á meðan sá fimmti rakaði mest allt hárið af höfði hans og framan af augabrúnum með rafmagnsknúnum hrossaklippum og rafmagnsrakvél sem ákærðu höfðu meðferðis.

Þá eru þau ákærð fyrir ólögmæta nauðung og kynferðislega áreitni með því að hafa í félagi, í kjölfar þeirra atvika sem lýst er hér að ofan, veist á ný með ofbeldi að manninum, yfirbugað hann og fært hann á jörðina. 

Í ákærunni segir að þrjú ákærðu hafi haldið manninum nauðugum liggjandi á kviðnum á meðan eitt þeirra dró buxur hans niður fyrir rass og tróð rafmagnsrakvélinni á milli rasskinna mannsins að endaþarmsopi hans og skildi hana eftir í gangi.

Þá segir í ákærunni að maðurinn sem ráðist var á hafi hlotið hrufl og nokkur grunn sár í hársverði á nokkrum stöðum, grunn sár og bólgu á enni, mar á hægri olnboga og í kringum báða úlnliði, stirðleika í hálsi, eymsli við endaþarm og að hann hafi misst nærri allt hárið af höfði sér.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Í einkaréttarkröfu fórnarlambsins sem tekin er upp í ákærunni er farið fram á að ákærðu greiði honum þrjár milljónir, auk vakta frá tjónsdegi.

Aðalmeðferð í málinu fer fram á mánudag og þriðjudag í héraðsdómi Suðurlands.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×