Erlent

Önnur minnsta út­breiðsla haf­íssins á norður­skautinu í sögunni

Kjartan Kjartansson skrifar
Hafísinn á norðurskautinu nær yfirleitt lágmarki eftir sumarylinn í lok september eða byrjun október áður en sólin lækkar á lofti og kólnar í veðri.
Hafísinn á norðurskautinu nær yfirleitt lágmarki eftir sumarylinn í lok september eða byrjun október áður en sólin lækkar á lofti og kólnar í veðri. AP/David Goldman

Útbreiðsla hafíssins á norðurskautinu þegar hún var minnst í lok sumars var sú önnur minnsta frá því að mælingar hófust. Þau fjórtán ár sem útbreiðslan hefur mælst minnst hafa nú öll verið undanfarin fjórtán ár.

Hafísinn á norðurskautinu náði minnst yfir 3,74 milljónir ferkílómetra þriðjudaginn 15. september. Samkvæmt bráðabirgðatölum Snjó- og ísgagnastofnunar Bandaríkjanna (NSIDC) var það lægsta útbreiðsla hafíssins í sumar, að sögn loftslagsvefsíðunnar Carbon Brief.

Sumarlágmarkið í ár er það annað minnsta frá því að gervihnattamælingar hófust undir lok 8. áratugs síðustu aldar. NSIDC segir að það sé í samræmi við langtímahnignunar hafíssins. Aðeins munaði um 350.000 ferkílómetrum á útbreiðslunni í ár annars vegar og metlágmarkinu í lok sumars 2012 hins vegar.

Útbreiðslan í lok sumars nú er 2,51 ferkílómetrum minni en meðalútbreiðslan á þessum árstíma frá 1981 til 2010. Það er sambærilegt við flatarmál Grænland og Finnlands samanlagt.

Útbreiðsla hafíssins 15. september undanfarin ár. Aðeins metárið 2012 var hún minni en í ár.NSIDC

NSIDC setur þann fyrirvara við bráðabirgðatölurnar að breytt vindátt eða bráðnun seint á tímabilinu gæti dregið enn úr útbreiðslu hafíssins líkt og var raunin árin 2005 og 2010. Vanalega næst sumarlágmark íssins seint í september eða snemma í október.

Þegar útbreiðslan nú um miðjan september er borin saman við metlágmarkið 2012 er nú meiri hafís í Beaufort-hafi en nokkuð minni í Laptev- og Austur-Grænlandshafi.

Hop hafíssins á norðurskautinu er ein af afleiðingum hnattrænnar hlýnunar af völdum manna. Frá 1979 til 2020 hefur útbreiðslan dregist saman um 13,4% á áratug borið saman við meðaltal áranna 1981 til 2010.

Kort af útbreiðslu hafíssins 17. september 2012 (litað hvítt) og 15. september 2020 (litað blátt).NSIDC


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.