Enski boltinn

Hættir við að hleypa inn áhorfendum inn á leikina 1. október

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsmenn Liverpool fengu ekki að fagna langþráðum Englandsmeistaratitli inn á Anfield en fögnuðu margir mikið fyrir utan völlinn.
Stuðningsmenn Liverpool fengu ekki að fagna langþráðum Englandsmeistaratitli inn á Anfield en fögnuðu margir mikið fyrir utan völlinn. Getty/Christopher Furlong

Ástandið í útbreiðslu kórónuveirufaraldursins í Bretlandi kallar á viðbrögð frá stjórnvöldum og þær aðgerðir munu bitna á íþróttunum.

Liðin í ensku úrvalsdeildinni sem og neðri deildunum voru að gera sér vonir um að fá áhorfendur á leiki sína 1. október en nú er ljóst að svo verður ekki.

Byrja átti rólega og taka inn áhorfendum í litlum skömmtun en mikil pressa hefur verið frá félögum um að leyfa áhorfendur á nýjan leik.

Yfirvöld í Bretlandi hafa hins vegar ákveðið að hækka viðbúnaðarstig í landinu vegna mikillar fjölgunar kórónuveirusmita í landinu og Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, mun einnig greina frá hertari aðgerðum í dag.

Breski ráðherrann Michael Gove endaði allar vonir ensku félaganna í bili með því að lýsa því yfir að áhorfendurnir verði ekki leyfðir um næstu mánaðamót.

Félögin höfðu stefnt á það að fara að hleypa áhorfendum inn á vellinum í litlum prufuhópum þar sem fjöldinn yrði bara þúsund manns. Þau plön hafa nú verið sett aftur niður í skúffu.

Michael Gove staðfesti það við breska ríkisútvarpið í morgun að bresk stjórnvöld væru ekki reiðubúin að stíga þetta skrefa í núverandi ástandi en viðbúnaðarstigið hefur nú verið fært upp í fjögur af fimm mögulegum.

„Við vorum að horfa til þess að setja upp áætlanir um að fara taka áhorfendur inn á íþróttaviðburði en við vorum aldrei að fara fylla vellina af fólki,“ sagði Michael Gove.

„Við ætlum nú að bíða með slík plön en ætlum okkur að fá fólkið aftur inn þegar aðstæður bjóða upp á slíkt. Það eru minni líkur á því að fólk smitist utanhúss en það er í eðli íþróttaviðburða að fólk blandast mikið saman,“ sagði Gove.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.