Erlent

Hálf milljón flýr stjórnlausa elda í Oregon

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Reykurinn af eldunum slær gulri birtu yfir landslag í Oregon í gær.
Reykurinn af eldunum slær gulri birtu yfir landslag í Oregon í gær. Vísir/getty

Rúm hálf milljón manna í Oregon í Bandaríkjunum hefur nú þurft að leggja á flótta undan gríðarlegum skógareldum í ríkinu. Eldarnir loga einnig í nágrannaríkjunum Kaliforníu og Washington.

Kate Brown ríkisstjóri Oregon segir óljóst hversu margir hafi látið lífið en staðfest er að fjórir hið minnsta hafi dáið í hamförunum. Eldarnir loga glatt vegna óvenju heitra vinda sem blása um svæðið og í Oregonríki loga nú tugir elda stjórnlaust. Aldrei hafa fleiri stjórnlausir gróðureldar logað í ríkinu á sama tíma.

Rúmlega hundrað eldar loga nú í tólf ríkjum á vesturströnd Bandaríkjanna. Að minnsta kosti tíu hafa látist í Kaliforníu og eignatjón er gífurlegt. Alls hafa rúmlega fjórar milljónir ekra brunnið, svæði á stærð við Wales.

Rúmlega þrettánhundruð konur úr kvennafangelsinu í Coffee Creek eru á meðal þeirra sem neyðst hafa til að flýja eldana í Oregon. Fangelsið er í grennd við tvo stóra bruna sem óttast er að séu að sameinast í einn gríðarstóran gróðureld. Þá eru tólf ára drengur og amma hans á meðal þeirra sem farist hafa í eldunum í Oregon.

Einn stærsti eldurinn, sem kallaður er Almeda-eldurinn, logar í grennd við landamæri Oregon að Kalíforníu. Grunur leikur á íkveikju í því tilfelli en að minnsta kosti tvö dauðsföll eru rakin til eldsins og hundruð húsa hafa orðið honum að bráð.


Tengdar fréttir

Stór hluti bæjar brann til kaldra kola

Íbúar bæjarins Phoenix í Oregon í Bandaríkjunum eru agndofa eftir að stór hluti bæjarins brann til kaldra kola í einum þeirra fjölmörgu gróðurelda sem loga á Vesturströnd Bandaríkjanna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×