Erlent

Réttarhöldunum frestað vegna kórónuveirunnar

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Assange hefur verið ákærður fyrir brot á njósnalögum.
Assange hefur verið ákærður fyrir brot á njósnalögum. AP/Francisco Seco

Réttarhöldum yfir Julian Assange, stofnanda WikiLeaks, í Lundúnum hefur verið frestað fram á mánudag. Óttast er að einn lögmanna hans gæti hafa smitast af kórónuveirunni.

Vanessa Baraitster, dómarinn í málinu, sagði við viðstadda í morgun að lögmaðurinn færi í skimun fyrir lok vikunnar. Því væri hægt að halda áfram eftir helgi. Réttarhöldin hófust á mánudag og fjalla þau um framsalskröfu Bandaríkjamanna.

Assange hefur verið ákærður fyrir brot á njósnalögum þar í landi í tengslum við birtingu á bandarískum leyniskjölum árið 2010 og á yfir höfði sér allt að 175 ára fangelsisdóm.

Áminntur í dómsal

Þessi 49 ára gamli Ástrali fékk áminningu í dómsal í gær fyrir frammíköll þegar lögmaður Bandaríkjamanna yfirheyrði Clive Stafford-Smith, stofnanda mannréttindabaráttusamtakanna Reprieve og vitni í málinu.

Stafford-Smith sagði að leyniskjölin sem WikiLeaks birtu meðal annars sýna fram á alvarleg brot Bandaríkjamanna, til dæmis varðandi drónaárásir í Pakistan. Við tók rifrildi vitnisins og lögmannsins um hvað ákæra Bandaríkjamanna snýst áður en Assange greip fram í og sagði, samkvæmt viðstöddum, að málflutningur bandaríska lögmannsins væri þvættingur.

Paul Rogers, prófessor í friðarfræðum við Bradford-háskóla, bar sömuleiðis vitni í málinu í gær. Sagði útlit fyrir að réttarhöldin væru pólitísks eðlis. Kristinn Hrafnsson, ritstjóri WikiLeaks, sagði við fréttastofu á mánudag að alvarlegir vankantar væru á málinu, sem minnti frekar á sýndarréttarhöld í alræðisríki en framgang í rótgrónu lýðræðisríki.


Tengdar fréttir

Assange skipað að hafa sig hægan í dómsal

Dómari í London varaði Julian Assange, stofnanda Wikileaks við því að hann yrði fjarlægður úr dómsal og réttað yrði yfir honum fjarstöddum ef hann héldi áfram að trufla réttarhöldin í dag.

Dagur mikilla vonbrigða

Réttarhöld yfir Julian Assange, stofnanda WikiLeaks, hófust á ný í Lundúnum í dag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×