Erlent

Dagur mikilla vonbrigða

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar

Réttarhöld yfir Julian Assange, stofnanda WikiLeaks, hófust á ný í Lundúnum í dag. Bandaríkin hafa krafist þess að Assange verði framseldur. 

Hann hefur verið ákærður fyrir brot á njósnalögum þar í landi í tengslum við birtingu á bandarískum leyniskjölum árið 2010 og á yfir höfði sér allt að 175 ára fangelsisdóm.

Kristinn Hrafnsson, ritstjóri WikiLeaks, segir þetta hafa verið dag mikilla vonbrigða. Dómarinn hefði hafnað að vísa frá nýjum efnisatriðum sem Bandaríkjamenn kynntu fyrir örfáum vikum. 

Þá hefði dómari ekki heldur viljað leyfa frestun réttarhalda, sem lögmenn Assange fóru fram á til að geta lagst yfir nýju gögnin.

„Þetta er einn af mörgum hlutum sem hafa gert það að verkum að maður er orðinn úrkula vonar um að það fáist nokkuð réttlæti hér,“ segir Kristinn.

Þá hefði dómari sömuleiðis ákveðið að eftirlitsmenn á vegum Amnesty International, Blaðamanna án landamæra og fleiri samtaka fái ekki að fylgjast með réttarhöldunum, líkt og áður hafði verið gert ráð fyrir.

„Það er eiginlega allt að í þessu. Það er allt að í þessum framgangi og minnir meira á einhver sýndarréttarhöld í alræðisríki heldur en framgang í rótgrónu lýðræðisríki í réttarsal hér í miðborg Lundúna.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.