Enski boltinn

Neville varði Greenwood og Foden: „Þeir þurfa væntumþykju“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Phil Foden og Mason Greenwood var sparkað úr enska landsliðshópnum fyrir að brjóta sóttvarnarreglur.
Phil Foden og Mason Greenwood var sparkað úr enska landsliðshópnum fyrir að brjóta sóttvarnarreglur. getty/Mike Egerton

Gary Neville tók til varna fyrir þá Mason Greenwood og Phil Foden sem var hent út úr enska landsliðshópnum fyrir að brjóta sóttvarnarreglur á Íslandi um helgina.

Greenwood og Foden buðu tveimur íslenskum stelpum upp á hótel til sín eftir að hafa spilað sinn fyrsta landsleik á laugardaginn þegar England sigraði Ísland, 0-1, í Þjóðadeildinni. Auk þess að vera teknir út úr landsliðshópnum fengu þeir 250 þúsund króna sekt frá íslenskum yfirvöldum. Þá er mál þeirra til rannsóknar hjá enska knattspyrnusambandinu.

„Núna líður þeim eflaust ömurlega,“ sagði Neville á Sky Sports í gær. „Við höfum séð afsökunarbeiðnir frá þeim báðum. Að vera tekinn út úr landsliðshópnum er eitthvað sem þú vilt ekki að gerist. En þegar þú skoðar svona atvik verður þú alltaf að fara í hlutverk leikmanns, þegar þú varst að spila og varst í búningsklefanum.“

Neville segir að þeir Greenwood og Foden þurfi á stuðningi að halda á þessum tíma. Það hafi lítið upp á sig að skamma þá frekar.

„Þeir þurfa væntumþykju núna. Þetta eru ungir strákar, ekki vélmenni. Allir sem hafa verið á þessum aldri hafa eða þekkja einhvern sem hefur gert eitthvað af sér; brjóta reglur, bregðast sjálfum sér eða lenda í átökum,“ sagði Neville sem var svo spurður hvort refsa ætti þeim Greenwood og Foden frekar.

„Þetta er ekki óskastaða. Þeir gerðu sig seka um stór mistök. Þeir munu sjá eftir þeim og borga fyrir þau. Þetta eru tveir hæfileikaríkir einstaklingar sem þeir lifa á brúninni og það gerist allt svo hratt hjá þeim. Við getum haldið áfram að þjösnast á þeim en það verður líka að sýna skilning. Já, þeir eru fulltrúar þjóðar sinnar og þeim mun líða mjög illa og eins og heimurinn sé að farast. En það er ekki þannig. Ég hef séð svona aðstæður hundrað sinnum. Eftir hálft ár man enginn eftir þessu. Liðsfélagar þeirra munu áfram elska þá. Þetta eru ungir krakkar.“


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.