Erlent

Peter Madsen viður­kennir loks að hafa drepið Kim Wall

Atli Ísleifsson skrifar
Peter Madsen afplánar nú lífstíðardóm vegna morðsins.
Peter Madsen afplánar nú lífstíðardóm vegna morðsins. Getty

Danski uppfinningamaðurinn og kafbátasmiðurinn  Peter Madsen hefur loks viðurkennt að hafa drepið sænsku blaðakonuna Kim Wall í kafbát hans í Køgeflóa tíunda dag ágústmánaðar 2017.

Madsen viðurkennir gjörðir sínar í samtölum við blaðamanninn Kristian Linnemann, en þættir hans, De hemmelige optagelser (í. Leyniupptökurnar), verða brátt sýndir á Discovery Networks. Byggja þættirnir á samtals um tuttugu klukkustunda samtölum blaðamannsins og Madsen.

Danskir fjölmiðlar greina frá því í morgun að Madsen viðurkenni í samtali við blaðamanninn að hann hafi pyndað, myrt og sagað lík Kim Wall og að lokum varpað því fyrir borð. „Það er mér að kenna að hún dó,“ segir Madsen.

Madsen segir að spurningar Wall hafi valdið því að hann gerði það sem hann gerði. „Það er mér að kenna að hún dó. Og það er mér að kenna, þar sem það var ég sem framdi glæpinn. Allt er mér að kenna.“

Dómstóll í Kaupmannahöfn dæmdi Madsen í lífstíðarfangelsi í apríl 2018.

Kim Wall.

Tekið upp án vitundar Madsen

Blaðamaðurinn Linnemann tók upp samtölin við Madsen án hans vitundar, en danskir fjölmiðlar segja Madsen hafi svo lagt blessun sína yfir því að notast yrði við upptökurnar.

Í samtölunum ku Madsen fyrst vera tregur til að ræða málin, en opnar sig svo æ meira eftir því sem fram vindur. Segist hann vanalega ekki vera ofbeldisfullur maður, en að Wall hafi ögrað honum með spurningum sínum í kafbátnum.

Madsen hafði boðið Wall um borð í heimasmíðaðan kafbát sinn og í siglingu að kvöldi 10. ágúst 2017. Hún skilaði sér hins vegar ekki í land og hófst þá mikil leit í Køge-flóa. Líkamspartar Wall fundust svo á hafsbotni eftir umfangsmikla leit á hafsbotni.

Í dómsal sagði Madsen að Kim Wall hafi látið lífið þegar hún fyrir mistök fékk þunga lúgu um borð í kafbátnum í höfuðið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×