Erlent

Sögulegt ástand í Kaliforníu sem versnar líklega

Samúel Karl Ólason skrifar
Slökkviliðsmenn að störfum í Kaliforníu.
Slökkviliðsmenn að störfum í Kaliforníu. AP/Noah Berger

Nokkrir slökkviliðsmenn í Kaliforníu eru slasaðir og minnst einn alvarlega eftir að hafa orðið undir í baráttunni við skógarelda í dag. Mennirnir voru staddir nærri Nacimiento í Los Padres þjóðgarðinum þegar eldurinn tók völdin. Fjórtán slökkviliðsmenn og vinnumenn á jarðýtu reyndu að hlífa sér í þar til gerðum neyðarskýlum.

Margir þeirra fengu brunasár og reykeitrun. Þrír voru fluttir með þyrlu á sjúkrahús og minnst einn þeirra í alvarlegu ástandi.

Annars staðar í ríkinu þurftu flugmenn herþyrlna að koma 164 manneskjum til bjargar sem höfðu orðið innlyksa vegna gróðurelda.

Hlýr og þurr vindur hefur í dag orðið til þess að þeir fjölmörgu gróðureldar sem loga nú í Kaliforníu hafa breitt hratt úr sér. Fyrr í dag gaf stofnunin Cal Fire, sem heldur utan um gróðurelda í ríkinu, út að alls loguðu 25 stórir eldar. Fjórtán þúsund slökkviliðsmenn væru við störf.

Alls hafa nærri því 2,3 milljónir ekra brunnið í Kaliforníu á þessu ári. Ástandið hefur ekki verið svo slæmt frá því mælingar hófust en versta tímabilið varðandi gróðurelda í ríkinu er ekki hafið enn.

Áður var það mesta sem hafði brunnið 1,96 milljónir ekra árið 2018.

Þá loga tveir af þremur stærstu skógareldum í sögu Kaliforníu nú við San Francisco flóa.

Í frétt LA Times segir að ástandið gæti versnað til muna á næstu dögum þar sem búist er við frekari vindi. Orkufyrirtæki ætla að taka rafmagnið af einhverjum svæðum í Kaliforníu til að reyna að koma í veg fyrir að fleiri eldar kvikna.

Fyrr í vikunni var gripið til þess að loka þjóðgörðum og tjaldsvæðum svo fólk kveikti ekki elda af slysni.

Gavin Newsom, ríkisstjóri Kaliforníu, sagði í dag að á þessu ári hefðu slökkviliðsmenn átt við 7.606 gróðurelda. Þeir hefðu brennt 2,3 milljónir ekra. Á sama tíma í fyrra voru eldarnir 4.927 og ekrurnar 118 þúsund.

Hann sagði ástandið vera sögulegt.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.