Erlent

Átta þúsund ferkílómetrar brunnir en versti tíminn eftir

Samúel Karl Ólason skrifar
Um 14.800 slökkviliðsmenn berjast við elda víða um Kaliforníu.
Um 14.800 slökkviliðsmenn berjast við elda víða um Kaliforníu. AP/Cindy Yamanaka

Skógar- og kjarreldar hafa brennt tvær milljónir ekra (um átta þúsund ferkílómetra) í Kaliforníu í Bandaríkjunum á þessu ári. Það er met og enn berjast slökkviliðsmenn við elda víða. Gamla metið var 1,96 milljónir ekra og var það sett árið 2018. Það sem er þó hvað merkilegast við metið er að sá hluti ársins sem iðulega er verstur vestanhafs, er ekki hafinn.

Talskona slökkviliðsins Cal Fire, sem heldur utan um skógar- og kjarrelda, segir embættismenn uggandi yfir ástandinu. September og október séu verstu mánuðirnir, þá sé þurrkur iðulega mikill og vindar meiri, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar.

Alls berjast um 14.800 slökkviliðsmenn við 23 stóra elda í ríkinu en frá 15. ágúst hafa 900 eldar verið skráðir. Embættismenn segja nauðsynlegt að koma í veg fyrir að nýir eldar kvikni. Ekki sé hægt að sinna þeim öllum. Með það í huga hefur tjaldsvæðum og almenningsgörðum víða verið lokað. Þannig er vonast til þess að færri eldar kvikni.

Einn eldurinn, sem brennt hefur um sjö þúsund ekrur, kviknaði til að mynda út frá reyktæki sem notað var í veislu þar sem verið var að opinbera kyn ófædds barns, samkvæmt frétt LA Times.

Íbúar Kaliforníu hafa sömuleiðis verið beðnir um að draga úr rafmagnsnotkun en sú mikla hitabylgja sem gengið yfir svæðið hefur leitt til mikillar rafmagnsnotkunar og eldarnir hafa skemmt dreifikerfi.

Sunnudagurinn var einn heitasti dagurinn frá því mælingar hófust í Kaliforníu.

Hér má sjá tvær gervihnattarmyndir sem teknar voru í gær. Önnur tekin um klukkan ellefu að morgni til og sú seinni um klukkan sjö um kvöldið. Skoða má myndefni úr gervihnettinum sem myndir eru frá með því að smella hér.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.