Erlent

Sjö mega ekki koma saman í Englandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Nú miða fjöldatakmarkanir við 30 manns. Nýju reglurnar munu ekki eiga við um vinnustaði, skóla og íþróttaviðburði.
Nú miða fjöldatakmarkanir við 30 manns. Nýju reglurnar munu ekki eiga við um vinnustaði, skóla og íþróttaviðburði. AP/Victoria Jones

Ríkisstjórn Bretlands ætlar að herða sóttvarnaraðgerðir í Englandi til muna á mánudaginn kemur. Meðal annars verða allar samkomur sjö eða fleiri bannaðar en nýsmituðum hefur farið hratt fjölgandi á Bretlandseyjum undanfarna daga. Þó fjöldi veikra sé ekki í nánd við það þegar mest var, þá óttast ráðamenn að yfirvöld séu að missa tökin á faraldrinum og er þess vegna verið að grípa til þessara aðgerða.

Nú miða fjöldatakmarkanir við 30 manns. Nýju reglurnar munu ekki eiga við um vinnustaði, skóla og íþróttaviðburði. Þá verður hægt að fá undanþágur. Yfirvöld í Skotlandi, Wales og Norður-Írlandi setja eigin sóttvarnarreglur.

Aðgerðirnar verða tilkynntar á morgun en fjölmiðlar á Bretlandi hafa þegar komið höndum yfir upplýsingar um þær.

Samkvæmt frétt Reuters mun Boris Johnson forsætisráðherra halda ræðu og segja þessar aðgerðir nauðsynlegar til að sporna gegn útbreiðslu veirunnar. Markmiðið sé að herða aðgerðirnar og í senn einfalda þær. Bæði svo fólk eigi auðveldara með að ná utan um þær og einnig lögregla.

Lögreglan mun geta sektað fólk um um það bil hundrað pund fyrir að brjóta gegn reglunum.

Í dag greindust 2.460 smitaðir á milli daga og í gær voru þeir 2.948. Á sunnudaginn greindust 2.988. Í mest allan ágúst fjölgaði smituðum um um það bil þúsund á dag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×