Erlent

Bertheus­sen hafi viljað kenna að­stand­endum leik­rits um glæpinn

Atli Ísleifsson skrifar
Húsleit var gerð á heimili Laila Bertheussen og dómsmálaráðherrans Tor Mikkel Wara á vordögum 2019.
Húsleit var gerð á heimili Laila Bertheussen og dómsmálaráðherrans Tor Mikkel Wara á vordögum 2019. EPA

Réttarhöld hófust í morgun í máli Laila Bertheussen, sambýlisskonu Tor Mikkel Wara, fyrrverandi dómsmálaráðherra Noregs. Bertheussen er ákærð fyrir að hafa kveikt í bíl, bera ljúgvitni og hótað öðrum ráðherra í ríkisstjórn Noregs.

Í máli saksóknara í morgun kom fram að ætlun Bertheussen hafi með gjörðum sínum verið að skaða aðstandendur leikritsins Ways of Seeing, á þann veg að láta það líta út fyrir að þeir hafi staðið að baki hótununum og íkveikju. Bertheussen neitar sök í málinu.

Sökuð um að kveikja í eigin bíl

Um miðjan mars 2019 var Bertheussen handtekin vegna gruns um hún hafi kveikt í bíl þeirra Wara, sem staðsettur var fyrir utan heimili þeirra, og láta það líta þannig út að glæpur hafi verið framinn. 

Hún er nú ákærð fyrir brot á 115. gr. norskra hegningarlaga sem kveður á um árás á starfsemi æðstu stofnana ríkisins. Þá er hún ákærð fyrir að hafa sent hótunarbréf til Ingvil Smines Tybring-Gjedde, öryggismálaráðherra Noregs, borið ljúgvitni og fyrir brot á bruna- og sprengiefnalögum landsins. Dómsmálaráðherrann Wara sagði af sér í kjölfar handtökunnar.

Leikritið Ways of Seeing

Þetta er í fyrsta sinn sem saksóknarar segja berum orðum að talið sé að Bertheussen hafi ætlað sér að koma sökina á aðstandendur Ways of Seeing. Áður hafi verið rætt að Bertheussen hafi ætlað sér að láta það líta þannig út að einhver, sem hafi álitið Wara og Bertheussen vera „rasista og/eða nasista“ hafi borið ábyrgðina.

Í mporgun kom fram að Bertheussen og vinkona hennar eigi að hafa farið á leiksýninguna í leikhúsi í Osló þann 24. nóvember 2018. Þar hafi hún tekið upp stóran hluta verksins á síma. 

Í verkinu mátti sjá nokkra leikara, af erlendum uppruna, þar sem þeir segja frá tilraunum sínum að kortleggja það sem þeir lýsa með „net kynþáttahatara“ í landinu. Blandast þar inn röð stjórnmálamanna og fólks í heimi viðskipta í Noregi.

Í sýningunni voru meðal annars sýndar myndir af heimili dómsmálaráðherrans Tor Mikkel Wara. Wara var ráðherra úr röðum Framfaraflokksins, en flokkurinn hefur lengi barist gegn straumi innflytenda til Noregs og fyrir almennt hertri innflytjendastefnu.

Wara mun bera vitni þann 17. september næstkomandi en áætlað er að réttarhöld standi til 13. nóvember.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×