Erlent

Sagði af sér sem dómsmálaráðherra eftir íkveikju og hótanir sambýliskonu gagnvart öðrum ráðherra

Samúel Karl Ólason skrifar
Tor Mikkel Wara og Erna Solberg, forsætisráðherra.
Tor Mikkel Wara og Erna Solberg, forsætisráðherra. EPA/Gorm Kallestad
Tor Mikkel Wara hefur sagt af sér sem dómsmálaráðherra Noregs. Það gerði hann í kjölfar þess að sambýliskona hans kveikti í bíl hans í fyrr í mánuðinum og laug að lögreglu um hvað gerðist. Þar að auki mun hún hafa sent hótunarbréf til Ingvil Smines Tybring-Gjedde, öryggismálaráðherra Noregs.

Laila Anita Bertheussen, sambýliskona Wara, er gert að hafa kveikt í bíl ráðherrans þann 10. mars, samkvæmt NRK. Hún var ákærð þann 14. mars og þá tók Wara sér frí frá störfum. Á blaðamannafundi í dag lýsti hann því yfir að hann hefði sagt af sér og það væri hans eigin ákvörðun. Hann sagði aðra þurfa meira á sér að halda en ríkisstjórnin.

Norska öryggislögreglan sendi í dag frá sér tilkynningu um að Laila Anita Bertheussen, sambýliskona Wara, væri nú með stöðu grunaðs manns í öðrum málum. Auk þess að hafa kveikt í bílnum og fyrir að hafa sent öryggismálaráðherranum hótun, er hún grunuð um skemmdarverk á eigin heimili.



Á blaðamannafundinum þakkaði Wara Ernu Solberg, forsætisráðherra, og Siv Jensen, fjármálaráðherra og leiðtoga Framfaraflokksins, fyrir traustið í hans garð. Þá sagðist hann gera sér grein fyrir því að blaðamenn hefðu margar spurningar en Wara sagðist ekki geta svarað þeim að svo stöddu.

Ekki er víst hver tekur við ráðuneytinu en Wara er fjórði dómsmálaráðherrann til að láta af störfum frá því núverandi ríkisstjórn Noregs tók við völdum árið 2013.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×