Erlent

Vara við því að veiran sé orðin stjórnlaus í Bretlandi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Nýsmituðum fjölgar ört í Bretlandi þessa dagana.
Nýsmituðum fjölgar ört í Bretlandi þessa dagana. Vísir/getty

Tveir vísindaráðgjafar bresku ríkistjórnarinnar hafa nú stigið fram og varað við því að kórónuveiran sé að verða stjórnlaus á Bretlandseyjum.

John Edmunds, prófessor sem á sæti í neyðarráði ríkisins, segir að veiran sé nú í veldisvexti í landinu. Edmunds hefur áður sagt að bresk stjórnvöld hefðu átt að innleiða landlægar veirutakmarkanir fyrr í faraldrinum.

„Við sjáum að faraldurinn er að komast á flug aftur. Þannig að ég held að við höfum ekki náð þeim góða áfanga að ná tökum á faraldrinum og leyfa efnahagslífinu að komast aftur í eðlilegt horf,“ segir Edmunds.

Annar prófessor, Jonathan van Tam, segir að Bretar hafi slakað alltof mikið á sóttvörnum sínum og að fólk verði að fara að taka veiruna alvarlega að nýju. Tam benti á að enn væru fáir lagðir inn á sjúkrahús vegna veirunnar og dauðsföll sömuleiðis hlutfallslega fá. En hafa þyrfti varann á. Unga fólkið, sem nú er meirihluti smitaðra, þyrfti að vera meðvitað um að það gæti smitað mjög út frá sér.

Staðfest voru 2988 smit í Bretlandi í gær og á sunnudag var svipað uppi á teningnum. Staðfest nýsmit í landinu hafa ekki verið svo mörg á einum degi síðan í lok maí. Hertar veirutaðgerðir tóku gildi víða á Bretlandseyjum nú eftir helgi. Takmarkanir á heimsóknum tóku gildi í Skotlandi og útgöngubanni verður komið á í borgarsýslunni Caerphilly í Wales síðdegis í dag.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×