Innlent

Segir ákveðinn sigur að Jón Baldvin hafi verið ákærður

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Carmen Jóhannsdóttir
Carmen Jóhannsdóttir Vísir/Brynjar Snær

Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, hefur verið ákærður fyrir kynferðisbrot gagnvart konu sem var gestkomandi á heimili hans á Spáni í júní 2018. Konan segist fegin að málið sé komið til ákæruvaldsins. 

Jón Baldvin Hannibalsson segir frá ákærunni í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag og samkvæmt henni sé sakarefnið að hafa „strokið utan klæða upp og niður eftir rassi“ viðkomandi konu.

Hann hafnar sakarefninu með öllu í greininni og segir málið hreinan uppspuna. Um það hafi „trúverðug vitni vottað við rannsókn málsins,“ eins Jón Baldvin segir í grein sinni. 

Fréttastofa hafði samband við Jón Baldvin í morgun og óskaði eftir ákærunni. Hann vísaði á lögmann sinn, Vilhjálm H. Vilhjálmsson sem hafi fengi ákæruna á föstudaginn. Ekki náðist í hann fyrir hádegisfréttir.

Í grein sinni í Morgunblaðinu segir Jón Baldvin að ákæran sé síðasta útspilið í skipulagðri aðför að mannorði sínu og Bryndísar sem hafi bráðum staðið yfir í tuttugu ár.

Konan sem um ræðir heitir Carmen Jóhannsdóttir. Hún steig fram og sagði frá sinni reynslu af Jóni Baldvini í viðtali við Stundina í janúar í fyrra. Þá neitaði Jón Baldvin einnig öllu en Carmen kærði hann til lögreglu í mars sama ár. 

Í samtali við Fréttastofu við Carmen í morgun sagðist hún ekki hafa fengið ákæruna ennþá.  Málið verði þingfest hjá héraðsdómi Reykjavíkur þann 16. september.

„Það hefur verið erfitt að að bíða svona svakalegan tíma eftir að skriður kæmi á málið. Þetta hefur verið hangandi yfir mér. Ég er rosalega fegin að þetta sé komið í þetta ferli núna og um leið fegin fyrir hönd allra hinna kvennanna sem hafa stigið fram og aldrei getað kært. Það er ákveðin sigur,“ segir Carmen. 

Nánar verður rætt við Carmen í kvöldfréttum Stöðvar 2.


Tengdar fréttir

Jón Baldvin ákærður fyrir kynferðisbrot

Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, hefur verið ákærður fyrir kynferðisbrot gagnvart konu sem var gestkomandi á heimili hans á Spáni í júní 2018.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.