Fótbolti

Vissi að Birkir hefði ekki tekið víti í nokkur ár

Sindri Sverrisson skrifar
Birkir Bjarnason tekur vítaspyrnu Íslands sem fór rétt yfir markið.
Birkir Bjarnason tekur vítaspyrnu Íslands sem fór rétt yfir markið. VÍSIR/DANÍEL

Jordan Pickford, landsliðsmarkvörður Englands, viðurkennir að hann hafi haft heppnina með sér að Ísland skyldi ekki ná að jafna úr vítaspyrnu í uppbótartíma á Laugardalsvelli í kvöld.

Raheem Sterling tryggði Englandi sigur með marki úr víti í uppbótartíma en Ísland fékk víti skömmu síðar. Birkir Bjarnason skaut hins vegar yfir úr henni.

Pickford var spurður út í vítaspyrnuna og hvað honum þætti um varnarleik Joe Gomez sem var dæmdur brotlegur, þegar hann reyndi að stöðva Hólmbert Aron Friðjónsson.

„Þeir komu með stóran strák inn á í lokin og það var mikið af mönnum þarna svo þetta var erfitt fyrir Joe. Ég gæti trúað að dómarinn hafi tekið ákvörðunina of snemma en við náðum að landa 1-0 sigri,“ sagði Pickford.

Mjög erfitt að brjóta Ísland á bak aftur

Hann var spurður hvort hann hefði jafnvel verið að vonast eftir að spyrna Birkis færi á markið, svo hann gæti varið og þaggað niður í gagnrýnisröddum:

„Ég hef alltaf trú á mér í vítum. Við söfnum gögnum um það hvernig andstæðingarnir taka vítin en strákurinn sem tók vítið hafði ekki tekið víti í nokkur ár svo við vissum ekki hvað hann myndi gera. Ég var smáheppinn að hann skyldi ekki hitta markið en kannski setti ég líka smá pressu á hann,“ sagði Pickford, ánægður með sigurinn.

Jordan Pickford hélt marki Englands hreinu á Laugardalsvelli.VÍSIR/DANÍEL

„Við urðum bara að vera þolinmóðir og vissum að þá fengjum við tækifæri. Við erum á undirbúningstímabili en þetta voru mjög góð úrslit,“ sagði Pickford.

„Við spiluðum mjög góðan bolta en það er mjög erfitt að brjóta Ísland á bak aftur. Þeir áttu mjög góðan leik og þetta var einn af þessum leikjum þar sem þurfti að nýta færið sem gafst. Við vissum að þetta yrði erfitt,“ sagði Everton-maðurinn.


Tengdar fréttir

Hörður Björgvin: Ánægður hvernig við spiluðum allir sem heild

Ísland tapaði með svekkjandi hætti fyrir Englandi í Þjóðadeild UEFA í dag. Lokatölur 0-1 þar sem England skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnu í uppbótartíma. Birkir Bjarnason klúðraði síðan víti fyrir Ísland á lokamínútu uppbótartímans.

Foden: Þetta var ekki auðvelt

Phil Foden lék sinn fyrsta landsleik fyrir enska A-landsliðið í 1-0 sigrinum á Íslandi í kvöld.

Hamren: Eitt versta tapið á ferlinum

Erik Hamren, þjálfari íslenska landsliðsins í fótbolta, var ansi vonsvikinn eftir 1-0 tapið gegn Englandi í Þjóðadeildinni í dag.

Sjáðu rauða spjaldið hjá Kyle Walker

Kyle Walker fór snemma í sturtu í leik Íslands og Englands í Þjóðadeildinni og skildi liðsfélaga sína eftir tíu á móti ellefu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×