Ljóst er að hvorki Kári Árnason né Sverrir Ingi Ingason, sem léku í miðri vörn Íslands í 0-1 tapinu fyrir Englandi í Þjóðadeildinni í dag, verða með í leiknum gegn Belgíu í Brussel á þriðjudaginn.
Búið var að ákveða að Kári færi ekki með til Belgíu líkt og Hannes Þór Halldórsson og Kolbeinn Sigþórsson sem lék reyndar ekki í dag vegna meiðsla.
Sverrir fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt í leiknum gegn Englandi þegar hann fékk á sig vítaspyrnu undir lokin. Hann verður í banni gegn Belgíu á þriðjudaginn og því þarf Erik Hamrén, þjálfari íslenska landsliðsins, að finna nýtt miðvarðapar fyrir þann leik.
Aðspurður á blaðamannafundi eftir leik sagðist Hamrén ekki vera búinn að ákveða hvort hann kalli í annan miðvörð fyrir leikinn gegn Belgíu. Hann ætti eftir að skoða þau mál.
Hamrén er með Hólmar Örn Eyjólfsson og Jón Guðna Fjóluson í íslenska hópnum og þá geta Hjörtur Hermannsson og Hörður Björgvin Magnússon leikið sem miðverðir. Hamrén á því ýmsa kosti í stöðunni.