Erlent

Rússneska bóluefnið gaf góða raun í tilraunum

Kjartan Kjartansson skrifar
Rússar nefndu bóluefni sitt „Spútnik“ í höfuðið á fyrsta gervitungli mannkynsins sem Sovétmenn skutu upp.
Rússar nefndu bóluefni sitt „Spútnik“ í höfuðið á fyrsta gervitungli mannkynsins sem Sovétmenn skutu upp. Vísir/EPA

Allir þátttakendur í frumtilraunum með bóluefni sem rússnesk stjórnvöld samþykktu í síðasta mánuði mynduðu mótefni gegn Covid-19 án alvarlegra aukaverkana samkvæmt niðurstöðum sem breska læknaritið Lancet birti í dag. Rússar segja niðurstöðurnar svara gagnrýnisröddum en sérfræðingar benda á að tilraunirnar hafi verið smáar í sniðum.

Athygli vakti þegar Rússar urðu fyrstir þjóða til að veita leyfi fyrir bóluefni gegn Covid-19, sjúkdómnum sem nýtt afbrigði kórónuveiru veldur í ágúst. Bóluefnið var samþykkt áður en nokkur gögn höfðu verið birt um það eða umfangsmiklar tilraunir með það farið fram.

Sumir vestrænir sérfræðingar tóku fréttunum með fyrirvara og vöruðu við því að bóluefnið væri notað áður en það hefði verið vottað alþjóðlega.

Stjórnvöld í Kreml segja að niðurstöðurnar sem voru birtar í dag slái vopnin úr höndum efasemdamanna um ágæti bóluefnisins á vesturlöndum, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

„Það er búið að haka í öll boxin. Nú byrjum við að spyrja spurninga um sum vestrænu bóluefnin,“ segir Kirill Dmitriev, forstjóri Rússneska beina fjárfestingasjóðsins (RDIF), sem heldur því fram að gagnrýni á rússneska bóluefnið hafi verið ætlað að skaða orðspor þess.

Naor Nab-Zeev fá Alþjóðlegu bóluefnamiðstöðinni og Johns Hopkins-lýðheilsuskólanum, segir niðurstöðurnar lofa góðu en að það séu smáar í sniðum. Ekki sé enn búið að sýna fram á virkni bóluefnisins með óyggjandi hætti.

Í grein Lancet kemur fram að allir 76 þátttakendurnir í rússnesku tilrauninni hafi myndað mótefni og engar alvarlegar aukaverkanir hafi komið fram. Þörf sé á stærri og lengri rannsóknum með samanburði við lyfleysu til þess að ákvarða öryggi og virkni bóluefnisins.

Rússar segja að frekari tilraunir með um 40.000 þátttakendum séu þegar hafnar. Þeir búast við því að framleiða allt að tvær milljónir skammta af bóluefninu á mánuði fyrir lok ársins.


Tengdar fréttir

Meirihluti lækna myndi ekki vilja bóluefni Rússa

Meirihluti rússneskra lækna myndi ekki vilja láta sprauta sig með nýju kórónuveirubóluefni sem rússnesk stjórnvöld segja að sé tilbúið vegna skorts á upplýsingum um bóluefnið og þess hve hratt bóluefnið var þróað og samþykkt.

Vísindamenn segja erfitt að treysta bóluefni Rússa

Vísindamenn eru sumir hverjir undrandi yfir tilkynningu Vladimírs Pútín Rússlandsforseta um það að heilbrigðisyfirvöld í landinu hafi lagt blessun sína yfir bóluefni gegn kórónuveirunni sem þróað var í Rússlandi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.