Íslenski boltinn

Leiknir fyrsta liðið til að leggja ÍBV | Magnavélin farin að malla

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Leiknismenn gerðu sér lítið fyrir og unnu ÍBV í Vestmannaeyjum í kvöld.
Leiknismenn gerðu sér lítið fyrir og unnu ÍBV í Vestmannaeyjum í kvöld. Vísir/Skjáskot

Þremur leikjum er nú lokið í Lengjudeild karla af þeim fimm sem fara fram í kvöld. Leiknir Reykjavík gerði sér lítið fyrir og varð fyrsta lið deildarinnar til að leggja ÍBV að velli. Þá vann Magni Grenivík sinn annan sigur í röð á meðan Vestri valtaði yfir Þór Akureyri á Ísafirði.

Leiknir heimsótti Vestmannaeyjar í kvöld og fóru heim í Breiðholtið með þrjú stig. Mörk Leiknis skoruðu Sólon Breki Leifsson og Sævar Atli Magnússon. Bæði mörkin komu í fyrri hálfleik og áttu heimamenn engin svör í þeim síðari.

Mark Sólons Breka var einkar glæsilegt en hann skoraði með skoti frá miðjulínu.

Eftir tvo tapleiki í röð hafa Leiknismenn nú unnið tvo leiki í röð gegn liðum sem eru að berjast um að komast upp í Pepsi Max deildina. Þeir unnu Keflavík 5-1 á heimavelli og svo ÍBV 2-0 í kvöld.

Sigurinn lyftir Leikni upp í 2. sæti deildarinnar með 26 stig á meðan ÍBV dettur niður í 4. sætið með 24 stig.

Magni á óvænt möguleika á að halda sér uppi en menn neita einfaldlega að gefast upp á Grenivík. Liðið hafði ekki unnið leik þangað til í síðustu umferð þegar það vann Leikni frá Fáskrúðsfirði óvænt 3-1 á útivelli. Þar áður höfðu Magnamenn náð í stig á heimavelli gegn ÍBV.

Annar sigur sumarsins kom í kvöld er Afturelding heimsótti Grenivík. Leiknum lauk með 3-2 sigri heimamanna en fyrri leikur liðanna fór 7-0 fyrir Aftureldingu.

Louis Aaron Wardle og Costelus Lauturu komu Magna í 2-0 í fyrri hálfleik. Jason Daði Svanþórsson minnkaði muninn fyrir Aftureldingu í þeim síðari áður en Kristinn Þór Rósbergsson kom Magna aftur tveimur mörkum yfir með marki úr vítaspyrnu á 65. mínútu.

Jason Daði minnkaði muninn að nýju en nær komst Afturelding ekki. Lokatölur 3-2 og annar sigur Magna í sumar staðreynd.

Sigurinn lyftir Magna upp af botninum. Liðið er nú í 11. sæti með átta stig. Afturelding er í 8. sæti með 12 stig.

Þá vann Vestri góðan 4-1 heimasigur á Þór Akureyri á Ísafirði í kvöld. Heimamenn sitja nú í 7. sæti með 19 stig á meðan Þór er sæti ofar með 20 stig.

Markaskorarar fengnir af Fótbolti.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×