Erlent

Zaev aftur til valda eftir nauman kosningasigur

Atli Ísleifsson skrifar
Zoran Zaev.
Zoran Zaev. Getty

Zoran Zaev tók aftur við embætti forsætisráðherra Norður-Makedóníu seint í gærkvöldi, sjö mánuðum eftir að hann sagði af sér vegna seinagangs í aðildarviðræðum landsins og Evópusambandsins.

Zaev er baráttumaður fyrir bættum samskiptum Norður-Makedóníu og Vestur-Evrópu og var einn helsti hvatamaður þess að landið tæki upp nafnið Norður-Makedónía til að greiða leið landsins að fullri aðild að NATO og ESB.

Zaev og Jafnaðarmannaflokkur hans unnu nauman sigur á þjóðernisflokkum í þingkosningunum í júlí. Meirihluti þingsins, 62 þingmenn af samtals 120, greiddi atkvæði með tillögu um að hann yrði ný forsætisráðherra landsins í gærkvöldi.

Í ræðu sinni í gær hét Zaev því að ljúka aðildarviðræðum við ESB innan sex ára.

Þingið var leyst upp í febrúar síðastliðinn í kjölfar afsagnar Zaev, en hann hafði þá gegnt embættinu frá árinu 2017. 

Zaev sagði af sér eftir að ESB neitaði að samþykkja tímaáætlun um aðildarviðræður, en mánuði síðar samþykkti ESB hins vegar að aðildarviðræður gætu hafist. Ekki voru gefnar upp neinar dagsetningar þó að embættismenn á vegum ESB hafa sagt að það gæti gerst síðar á þessu ári.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×