Innlent

Allt að 18 stiga hiti á Norðausturlandi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Spákort Veðurstofu Íslands eins og það lítur út fyrir klukkan 15 í dag.
Spákort Veðurstofu Íslands eins og það lítur út fyrir klukkan 15 í dag.

Það verða fremur hægir vindar á sunnan- og vestanverðu landinu í dag og óveruleg úrkoma framan af degi að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Það mun hins vegar bæta í vind austan til á landinu, einkum nyrðra, og rigna talsvert um suðaustanvert landið. Seint í dag styttir um þar að mestu en þá taka við skúrir, aðallega vestan til á landinu.

Hiti verður yfirleitt á bilinu 10 til 15 stig nema á Norðausturlandi þar sem spáð er úrkomulitlu veðri og hæstum hita eða allt að 18 stigum.

Á morgun stefnir í suðvestanátt með skýjuðu veðri og skúrum víða um land en bjartviðri á Norðaustur- og Austurlandi og svipuðum hita líkt og í dag.

Það er síðan útlit fyrir kólnandi veður um miðja vikuna í norðlægum áttum með úrkomu norðanlands sem fellur að hluta sem slydda til fjalla.

Veðurhorfur á landinu:

Suðaustan 3-8 m/s, en 8-13 fram eftir degi austanlands. Talsverð rigning á Suðausturlandi, annars dálítil rigning með köflum, en víða skúrir um seinnipartinn. Hiti 10 til 15 stig. Þurrt að mestu norðaustan til og hiti að 18 stigum þar.

Á þriðjudag:

Sunnan 5-10 m/s um austanvert landið, en norðaustan 5-10 á Vestfjörðum seinnipartinn, annars fremur hæg vestlæg átt. Víða skúrir eða rigning, en þurrt að kalla á Austurlandi. Hiti frá 8 stigum á Vestfjörðum, upp í 16 stig norðaustan til.

Á miðvikudag:

Gengur í norðaustan 5-13 m/s, hvassast á Vestfjörðum. Skýjað með köflum og lítilsháttar væta hér og þar. Hiti 6 til 13 stig, hlýjast suðvestan til.

Á fimmtudag:

Norðan 5-13 m/s, hvassast við norðurströndina með rigningu. Austlægari átt á Suðausturlandi og fer einnig að rigna þar, en þurrt vestanlands. Hiti frá 5 stigum í innsveitum fyrir norðan, upp í 12 stig á Suðvesturlandi.

Á föstudag:

Dregur úr norðanáttinni en rignir norðaustanlands framan af degi með slyddu til fjalla. Þurrt og bjart sunnan heiða. Hiti 3 til 11 stig, mildast syðst á landinu.

Á laugardag og sunnudag:

Útlit fyrir fremur hæga vestlæga eða breytilega átt. Skýjað með köflum og lítilsháttar væta, en þurrt austan til. Svalt í veðri.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×