Íslenski boltinn

Rúnar Páll: Jafntefli telja of lítið en eru samt stig

Ísak Hallmundarson skrifar
Rúnar Páll Sigmundsson
Rúnar Páll Sigmundsson Vísir

KA og Stjarnan gerðu markalaust jafntefli á Greifavelli á Akureyri í Pepsi Max deild karla í dag.

„Ég er ekki sáttur. Ég hefði viljað fá þrjú stig. Fannst við fá hættuleg færi sem við hefðum átt að nýta betur, sérstaklega hjá Emil í fyrri hálfleik, opið mark og svo átti Hilmar ágætismöguleika á að setja hann í netið, en nei ég er ekki sáttur, við eigum að vinna þennan leik,“ sagði Rúnar Páll Sigmundsson þjálfari Stjörnunnar.

„Það var kraftur í okkur og vinnusemi og dugnaður og allt það sem því fylgir. Mér fannst við spila ágætlega en við náðum ekki að klára þetta svona á síðasta þriðjungi. Við sköpuðum okkur ekki þessi opnu færi sem við hefðum viljað fá.“

Þetta er sjötta jafntefli Stjörnunnar í sumar í ellefu leikjum.

„Við þurfum að nýta færin okkar og erum búnir að vera að fá á okkur mörk í lok leikja, sem er ekki alveg nógu gott. En við erum bara á ágætissiglingu og höldum áfram, þessi jafntefli telja of lítið en eru samt stig. Í fyrra fengum við núll stig á móti KA en núna fengum við tvö, það er bæting frá því í fyrra,“ sagði Rúnar um jafnteflin og bætti við að þeir þyrftu að fara að breyta jafnteflum í sigra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×