Erlent

Lára gengin á land í Lou­isiana

Atli Ísleifsson skrifar
Skemmtigarður við ströndina í Galveston í Texas í gærkvöldi.
Skemmtigarður við ströndina í Galveston í Texas í gærkvöldi. Getty

Fellibylurinn Lára hefur nú náð landi í Louisiana og Texas í Bandaríkjunum og er byrjaður að valda miklum skyndiflóðum.

Lára er nú flokkuð sem fjórða stigs fellibylur og er talið að hún gæti valdið gríðarlegri eyðileggingu þar sem vindhraðinn hefur nú náð allt að 67 metrum á sekúndu. Haldi fellibylurinn þessum styrk gæti þetta verið einn öflugasti fellibylurinn til að skella á suðurströnd Bandaríkjanna.

Um hálf milljón manna hefur verið gert að yfirgefa heimili sín í hluta Texas og Louisiana.

BBC segir frá því að Lára hafi gengið á land skömmu eftir miðnætti að staðartíma, um klukkan fimm í morgun að íslenskum tíma, nærri Cameron í Louisiana.

Fellibyljamiðstöð Bandaríkjanna hefur varað íbúa við því að vera á svæðinu og biðlað til fólks að grípa til aðgerða nú til að hægt sé að koma í veg fyrir manntjón. Er því sagt að halda kyrru fyrir í herberjum fjarri gluggum. „Farið undir borð eða önnur sterkbyggð húsgögn. Notið dýnur, teppi eða kodda til að verja höfuð ykkar og líkama.“

Nærri 200 þúsund heimili í Louisiana eru nú án rafmagns, en í Texas eru þau um 45 þúsund.

Fellibylurinn Lára, auk annars sem nefndur hefur verið Marco, hefur nú þegar valdið miklum usla í Karíbahafi og er tala látinna þar nú 24.

Lára hefur sótt í sig veðrið síðustu daga og efldist á tímabili um nærri 70 prósent á innan við sólarhring.


Tengdar fréttir

Fellibylurinn Lára sækir í sig veðrið

Fellibylurinn Lára sem stefnir hraðbyri að ströndum Bandarísku ríkjanna Texas og Louisiana hefur sótt í sig veðrið í dag og flokkast nú sem fjórða stigs fellibylur. Þá hafa veðurfræðingar varað við því að flætt gæti vegna flóðsins og vatnsyfirborðið náð allt að sex metra hæð og segja nær ómögulegt að lifa slíkt flóð af.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×