Íslenski boltinn

Unnu 25-1 sigur í 4. deildinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
ÍH átti ekki í neinum vandræðum með að vinna Afríku United í Skessunni í gær.
ÍH átti ekki í neinum vandræðum með að vinna Afríku United í Skessunni í gær. mynd/twitter-síða íh

Alls voru 26 mörk skoruð í leik ÍH og Afríku United í A-riðli 4. deildar karla í gær. Þeim var nokkuð ójafnt skipt; ÍH skoraði 25 mörk en Afríka aðeins eitt.

Afríka sigraði Uppsveitir, 3-2, í síðustu umferð en það lá snemma fyrir að liðið myndi ekki ná að fylgja þeim sigri eftir gegn ÍH í Skessunni í Hafnarfirði í gær.

Eftir fimm mínútna leik voru Hafnfirðingar komnir í 3-0. Og eftir 20 mínútur var staðan 7-0, ÍH í vil.

Afríka minnkaði muninn í 8-1 á 36. mínútu en ÍH svaraði með fimm mörkum áður en flautað var til hálfleiks. Staðan því 13-1 þegar liðin gengu til búningsherbergja. Í seinni hálfleik bætti ÍH tólf mörkum við og 25-1 sigur þeirra staðreynd.

Pétur Hrafn Friðriksson og Andri Þór Sólbergsson skoruðu báðir sjö mörk í leiknum í gær. Ingvar Ásbjörn Ingvarsson skoraði þrennu, Magnús Stefánsson og Garðar Ingi Leifsson sitt hvor tvö mörkin og þeir Hákon Gunnarsson, Bergþór Snær Gunnarsson, Hilmar Rafn Emilsson og Patrik Snær Atlason eitt mark hver. Pavel Nazarov skoraði mark Afríku.

Þetta er ekki fyrsta stórtap Afríku í gegnum tíðina og ekki það fyrsta í sumar. Þann 16. júlí tapaði Afríka t.a.m. 17-0 fyrir Ými. ÍH vann svo fyrri leikinn gegn Afríku með sjö mörkum gegn einu.

Afríka er á botni A-riðils með þrjú stig og markatöluna 8-71. ÍH er í 2. sætinu með 22 stig, einu stigi á eftir toppliði KFS.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×